Innlent

Stjórn og stjórnar­and­staða sam­huga vegna Grinda­víkur

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar ræddi meðal annars við fréttastofu vegna aðgerða í þágu Grindvíkinga.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar ræddi meðal annars við fréttastofu vegna aðgerða í þágu Grindvíkinga. Vísir/Arnar

Ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan á Alþingi eru samhuga um það að þær aðgerðir sem gripið verður til fyrir Grindvíkinga verði þverpólitískt verkefni.

Þetta kom fram í samtali fréttastofu við formenn stjórnarandstöðuflokkanna fyrir utan ráðherrabústaðinn. Formenn allra flokka á þingi funduðu um stöðu mála í Grindavík og aðgerðir en ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 13:30.

„Þetta var góður fundur og ég fagna því að ríkisstjórnin taki vel í hugmyndir okkar í stjórnarandstöðunni um að nálgast þetta þverpólitískt, það verði einhugur og samstaða um þær aðgerðir til þess að taka utan um Grindvíkinga,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í samtali við fréttastofu.

„Það skiptir mjög miklu máli, því að þetta mál er þannig vaxið að þetta þarf að lifa af ríkisstjórnir og þannig líka að það séu ákveðin verkefni sem raunverulega svari spurningum Grindvíkinga og veiti þeim vissu en ekki óöryggi.“

Fóru yfir stöðuna

Hvað var það sem ríkisstjórnin kynnti?

„Hún kynnti stöðuna. Auðvitað hefði ég viljað sjá sterkari tillögur en um leið sýni ég mikinn skilning í því að það er verið að vinna hlutina áfram,“ segir Þorgerður.

„Við ákváðum á þessum fundi, allir flokkar, ríkisstjórn sem stjórnarandstöðuflokkar að formgera samstarfið og gera þetta þannig að þessar risastóru spurningar sem þarf að svara og stórar ákvarðanir, meðal annars út frá ríkisfjármálum, að við verðum þá einhuga í því að fara í það verkefni. Það er mjög mikilvægt og dýrmætt.“

Grindvíkingar fái svör sem fyrst

Þorgerður segir að aðgerðirnar eigi að taka gildi sem fyrst. Að öðru leyti tjáir hún sig ekki nánar um þær.

Þannig það var ekki ákveðið hvort kaupa ætti hús Grindvíkinga?

„Ja það eru ýmsir valkostir og við höfum lagt áherslu á það í Viðreisn að Grindvíkingar sem eru ólíkir, þeir fái þá ólíka valkosti til að velja um og það er ýmislegt sem verið er að skoða og við ætlum að fara í það hratt, þvert á flokka.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×