Fótbolti

Håland og Messi jafnir að stigum en Messi stóð uppi sem sigur­vegari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Messi elskar að vinna til verðlauna.
Messi elskar að vinna til verðlauna. Andy Lyons/Getty Images

Í gærkvöld fór verðlaunahátíð FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, fram í Lundúnum. Var besta knattspyrnufólk ársins 2023 heiðrað. 

Athygli vakti að Lionel Messi, leikmaður Inter Miami, var kjörinn besti leikmaður ársins en ekki til að mynda Erling Braut Håland sem stóð uppi sem Englands-, Evrópu-, bikar- og heimsmeistari félagsliða með Manchester City.

Kosning FIFA verðlaunanna er áhugaverð en hún er fjórþætt og hefur hver „þáttur“ 25 prósent gildi í heildina. Fyrirliðar og þjálfarar landsliða eru með kosningarétt, einn blaðamaður frá hverju landi er með kosningarétt og þá fá aðdáendur að kjósa í gegnum vefsíðu FIFA.

Eru þrír leikmenn valdir, sá besti fær fimm stig, sá næstbesti þrjú stig og sá þriðji fær eitt stig. Búið er að opinbera hver kaus hvað en þar kemur fram að Argentínumaðurinn Messi og Norðmaðurinn Håland voru jafnir að stigum.

Ef tveir efstu menn kjörsins eru jafnir að stigum er athugað hvor þeirra fékk oftar fimm stig, það er hvor var oftar í 1. sæti hjá þeim sem kusu. Þar hafði Messi betur og því var hann valinn leikmaður ársins hjá FIFA. Hann var þó ekki viðstaddur og tók Thierry Henry, fyrrverandi samherji hans hjá Barcelona, við þeim fyrir hönd Argentínumannsins.

Jóhannes Karl ósammála Aroni Einari og Víði Sig

Alls höfðu þrír Íslendingar kosningarétt í karlaflokki. Það eru þeir Jóhannes Karl Guðjónsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins. Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins og Víðir Sigurðsson, blaðamaður á Morgunblaðinu.

Jóhannes Karl setti Lionel Messi í 1. sæti, þar á eftir komu Håland og Kevin De Bruyne, samherji hans hjá Man City. Þeir Aron Einar og Víðir voru báðir með Håland fyrstan á blaði en ósammála um hina tvo.

Aron Einar setti Messi í annað sætið og Rodri, miðjumann Spánar og Man City í 3. sætið. á meðan Víðir setti De Bruyne í 2. sætið og svo Khvicha Kvaratskhelia, vængmann Georgíu og Ítalíumeistara Napolí, í 3. sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×