Fótbolti

Endar Henderson á Ítalíu?

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jordan Henderson vill heim.
Jordan Henderson vill heim. Vísir/Getty

Jordan Henderson flutti sig um set til Sádi Arabíu í haust frá Liverpool þar sem hann var fyrirliði. Hann vill nú burt þaðan og gæti endað í ítölsku deildinni.

Fregnir af óánægju Jordan Henderson hjá sádiarabíska félaginu Al Ettifaq hafa verið áberandi síðustu viku. Hann er sagður vilja yfirgefa félagið eftir aðeins sex mánaða dvöl þar en mikla athygli vakti þegar Henderson yfirgaf Liverpool rétt fyrir upphaf ensku úrvalsdeildarinnar.

Henderson er orðinn 33 ára gamall en virðist enn í áætlunum landsliðsþjálfara Englands Garetth Southgate og stefnir á að vera hluti af landsliðshópi Englendinga á EM í Þýskalandi í sumar.

Juventus hefur nú verið nefnt sem það lið sem er líklegast til að næla í Henderson. Ítalska stórliðið er að leita að styrkingu á miðsvæðinu og eru að skoða möguleikann á því að fá Henderson til liðs við sig. Ajax hefur einnig verið nefnt sem mögulegur áfangastaður.

Samkvæmt ítalska blaðamanninum Gianluca Di Marzio vill Juventus fá Henderson á láni í sex mánuði eða þar til tímabilinu á Ítalíu lýkur. Sjálfur vill Henderson fá 18 mánaða samning. Íþróttamiðillinn Corriere dello Sport segir einnig frá vilja Juventus að ná í Henderson og segja viðræður í gangi.

Henderson er sagður þéna yfir 500.000 pund á viku í Sádi Arabíu en ljóst er að hann fær ekki svo mikið borgað hjá evrópskum liðum og spurning hvort Al Ettifaq taki á sig hluta launakostnaðarins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×