Fréttir berast nú af átökum á Vesturbakkanum, Hútar hafa gert atlögu að skipum á siglingu um Rauðahaf og síðustu daga hafa fréttir borist af eldflaugaárásum Ísraelsmanna í sunnanverðri Líbanon en Hesbollah samtökin gerðu þá nýlega umfangsmikla árás á herstöð í norðurhluta Ísrael.
Þegar árásir Ísraelsmanna hófust af fullum þunga á Gasa í kjölfar árásar Hamas þann 7. október segir Magnús að flestir hefðu búist við að nágrannaríki og bandamenn Palestínumanna myndu koma Gasabúum til hjálpar en þeir hafi um margra vikna skeið beðið átekta, að öllum líkindum vegna hernaðarmáttar Ísraelsmanna, en nú er breyting að verða á og einskorðast ófriðurinn ekki aðeins við Gasasvæðið.
„Mestu átökin hafa verði við landamæri Líbanon og það hafa verið gerðar nokkrar mannskæðar árásir frá Ísrael inni í Líbanon og þá sérstaklega á hersveitir Hesbollah samtakanna í Líbanon og hins vegar hafa verið aðgerðir á Vesturbakkanum og það bendir allt til þess að óróleikinn eigi eftir að aukast enn frekar á Vesturbakkanum sem og við landamæri Ísrael og Líbanon“
Það sé því líklegt í framhaldinu að ófriðurinn stigmagnist og að stríðið breiðist frekar út.
Fyrir alþjóðadómstólnum í Haag á morgun hefst málflutningur í málsókn Suður-Afríku á hendur Ísraelsríkis þar sem stjórnvöld eru sökuð um að fremja þjóðernishreinsanir á palestínskum íbúum á Gasa.
Magnús Þorkell segir bæði staðreyndir og myndefni frá Gasa tala sínu máli. Árásir Ísraelsmanna séu ekki hnitmiðaðar heldur almennar.
„Það er alger eyðilegging á mannvirkjum innviðum, mannfólki, stofnunum þess ríkis. Þeir vilja koma í veg fyrir venjulegt, eðlilegt ástand á Gasa og ef maður skoðar líka orðræðuna hjá bæði stjórnmálamönnum og öðrum framámönnum innan hersins þá gefur það til kynna að þetta eigi að vera allsherjarstríð og þá er verið að tala um tilfærslu, eyðileggingu, og það er líka verið að tala um að í framtíðinni verði þarna algjörlega nýtt samfélag á Gasa þar sem virðist eins og ekki sé gert ráð fyrir umtalsverðri viðveru Palestínumanna á þessum slóðum.“
Verið sé að reyna að flæma íbúa Gasa í burtu.
„Þetta er hluti af ákveðinni stefnu eða draum um að hreinsa til á þessu svæði, í nafni öryggis og þetta eru skelfilegar áætlanir ef maður á að taka trúanlega orðræðuna en síðan líka þegar maður sér afleiðingar þessarar gífurlega örflugu herstefnu sem þeir hafa verið að reka. Þetta allsherjarstríð þar sem alls konar stofnanir, fólk, blaðamenn, spítalar, heilbrigðisstofnanir og fleiri hafa legið undir árásum daglega síðustu mánuði þannig að það virðist vera eins og takmarkið séu endalok; setja einhvern punkt á þetta samfélag sem hefur verið þarna á Gasa,“ segir Magnús Þorkell.