Erlent

Ó­öld í Ekvador

Samúel Karl Ólason skrifar
Forseti Ekvador hefur sett á sextíu daga útgöngubann og skipað hernum að gera út af við á þriðja tug glæpagengja.
Forseti Ekvador hefur sett á sextíu daga útgöngubann og skipað hernum að gera út af við á þriðja tug glæpagengja. AP/Cesar Munoz

Forseti Ekvador hefur lýst yfir neyðarástandi vegna ofbeldisöldu þar í landi í kjölfar þess að alræmdur leiðtogi glæpagengis hvarf úr fangelsi. Skotbardagar hafa átt sér stað víðs vegar um landið, sprengingar og umfangsmikil rán. Þá hafa fangar hafið óeirðir í nokkrum fangelsum Ekvador á undanfarinni viku.

Í gær ruddust svo vopnaðir menn inn í upptökuver hjá miðlinum TC í borginni Guayaquil í gær og tóku þar fólk í gíslingu.

Daniel Noboa, forseti hefur því lýst yfir sextíu daga neyðarástandi en það felur í sér landlægt útgöngubann og gerir hernum kleift að vakta götur landsins og taka yfir stjórn fangelsa. Talið er að glæpagengi stjórni í raun allt að fjórðungi fangelsa Ekvador.

Þúsundir lögreglumanna og hermanna hafa verið kallaðir út til að leita að glæpaleiðtoganum alræmda, Adolfo Macías, samkvæmt frétt New York Times. Ríkisstjórn Ekvador hafði nýverið gefið út þá skipun að Macías yrði fluttur í hámarksöryggisfangelsi, sem talið er að hafa leitt til þess að hann flúði.

Forsetinn hefur skipað hernum að gera útaf við á þriðja tug glæpagengja í Ekvador og kallaði hann þau hryðjuverkasamtök.

Glæpir og áhrifamikil glæpagengi hafa lengi veið mikið vandamál í Ekvador en ofbeldisglæpir eru hvergi í Suður-Ameríku jafn tíðir og þar. Í kosningabaráttu sinni tók Noboa sérstaklega harða afstöðu í glæpamálum.

Annar forsetaframbjóðandi var myrtur í ágúst en hann sagði nokkrum dögum áður en hann dó að honum hefði borist hótanir vegna gagnrýni hans á glæpasamtök og fyrrverandi ríkisstjórn landsins.

Sjá einnig: Bananaprins kjörinn forseti í Ekvador

Í frétt CNN segir að átta hafi dáið í borginni Guayaquil í gær og tveir lögregluþjónar hafi dáið í borginni Nobol. Þá hafi tíu verið handteknir í borginni Machala í gær þegar þrír lögregluþjónar voru frelsaðir úr haldi glæpamanna.

Fyrr í gær hafði lögreglan sagt að sjö lögregluþjónar hefðu verið teknir í gíslingu í þremur borgum Ekvador.

Þá sagði lögreglan í morgun að búið væri að handtaka rúmlega sjötíu manns frá því neyðarástandinu var lýst yfir og leggja hald á átta sprengjur, fimmtán bensínsprengjur, níu byssur, skotfæri, sex mótorhjól og sex bíla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×