Innlent

Hefði frestað barn­eign hefði hún vitað af barnabanni

Lovísa Arnardóttir skrifar
Sylvía með syni sínum en hann verður sex vikna þegar lotan fer fram.
Sylvía með syni sínum en hann verður sex vikna þegar lotan fer fram. Aðsend

Einstæð móðir með barn á brjósti þarf að velja á milli þess að segja sig úr áfanga í fjarnámi í leikskólafræði við Háskólann á Akureyri eða sætta sig við lægri einkunn. Ástæðan er sú að ekki er leyfilegt að vera með barn í kúrsinum. Forsvarsmenn HA segja reynt að koma til móts við foreldra en gæta þurfi hagsmuna annarra nemenda um leið. 

Sylvía Guðmundsdóttir er einstæð móðir með sex vikna son sinn á brjósti. 

„Ég er á leið í námslotu sem við verðum að mæta í tvisvar á önn. Ég fékk svo nýverið þær upplýsingar að ég megi ekki mæta með sex vikna gamla barnið mitt,“ segir Sylvía. Þessi ákvörðun kennarans hafi komið henni í opna skjöldu. Margar bekkjarsystur hennar hafi eignast börn á meðan þær eru í námi, mætt með börnin og fengið að hafa þau hjá sér svo ung til að geta gefið þeim brjóst.

„Þetta er misjafnt eftir kennurum og þessi kennari setti inn í kennaraáætlun að börn séu ekki velkomin með í tíma. Ég sendi á hana að ég væri einstæð og með eitt sex vikna gamalt barn og hvort það væri ekki í lagi að hann kæmi með. Því ég gerði ráð fyrir að þetta bann ætti við um eldri börn,“ segir Sylvía. 

Frá kennaranum hafi hún fengið þau svör að það væri ekki í lagi.Hún yrði að finna einhvern til að hugsa um son sinn á meðan lotunni stæði eða að sleppa henni. Sylvía spurði þá hvort hún mætti fá hann inn í tíma bara á meðan hún væri að gefa honum brjóst en kennarinn sagði það líka bannað.

„En ég má fara úr tímum til að gefa honum að drekka. En með því myndi ég missa af 40 mínútum til klukkutíma í hvert sinn sem hann drekkur,“ segir Sylvía en sonur hennar drekkur á um tveggja tíma fresti.

„Stundum oftar, stundum sjaldnar. Þetta er bara enn svo óútreiknanlegt.“

Amman tekur launalaust leyfi

Lotan stendur í viku en þetta tiltekna námskeið er yfir tvo daga. Annan daginn frá 8 til 12 og svo aftur 13 til 16. Hinn daginn frá 8 til 12 fyrir hádegi.

„Fyrri dagurinn er langur og það er mikið að skilja svona lítið barn eftir svona lengi. Ég mun missa mikið með því að þurfa alltaf að hlaupa frá og gefa,“ segir Sylvía. Hún hefur fengið móður sína til að aðstoða sig á meðan lotunni stendur. Móðir hennar mun því hugsa um son hennar á meðan hún er í tíma og koma með hann til hennar þegar hann þarf að drekka.

„Mamma er að taka sér launalaust leyfi til að koma með okkur norður. Þannig er ég búin að leysa þessa lotu en það er önnur lota á önninni og þá kemst mamma ekki. Þá þarf ég líklega að sleppa þessum áfanga og missa 2,5 af einkunn, því þá er 25 prósent verkefni í gangi.“

Tvær námslotur eru á önninni en Sylvía sér fram á að sleppa kúrsinum í þeim seinni því enginn getur komið með henni norður. Háskólinn á Akureyri

Sylvía segir að í námslotunum sé oftast verið að vinna hópverkefni og hún hafi fengið þau skilaboð frá kennara að ef hún yrði ekki viðstödd á meðan myndi það verið tekið af einkunn hennar.

„Kennarinn mælti með því að ég myndi bara sleppa þessari lotu. Ég myndi bara missa 0,5 af einkunn. Sem mér finnst alveg fáránlegt. Ég hef metnað fyrir náminu og langar ekkert að missa úr einkunn bara út af þessu,“ segir Sylvía. 

Kennarinn hafi á endanum fallist á það að ef hópurinn samþykkti það þá megi hún gefa barninu á meðan unnið er í þessu hópaverkefni frammi á gangi.

„En á meðan það er unnið í tíma þá er það ekki í boði.“

Barnið truflun í tíma

Sylvía ræddi að þessu loknu við deildarforsetann sem sagði það undir kennaranum komið hvernig þessu sé háttað.

„Svo voru nokkur önnur rök fyrir þessari ákvörðun en þau sem mér fannst hvað fáránlegust voru að í þessu námi væri stundum verið að ræða siðferðisleg álitamál sem eigi ekki heima í eyrum barna. Það er gott og blessað en hann er sex vikna og veit ekkert hvað er verið að tala um,“ segir Sylvía.

Hún segir að deildarforsetinn hafi einnig fært fram þau rök að barnið myndi trufla hana og aðra samnemendur.

„En það truflar mig miklu meira að skilja svona lítið barn eftir heima allan daginn. Hvað varðar aðra nemendur þá myndi hann auðvitað bara vera hjá mér. En svo voru bestu rökin þau að skólinn hafi lært það í Covid að það væri svo mikil smithætta þegar hópur kemur saman og lítil börn eigi ekki heima í svona hópi. En hann er auðvitað nokkuð vel varinn á meðan hann er á brjósti auk þess sem hann yrði bara í mínu fangi eða í kerru eða bílstól. Hann er ekki að ganga á milli fólks.“

Mælt með brjóstagjöf til sex mánaða aldurs

Á íslenskum vinnumarkaði er réttur konu til að gefa barni sínu brjóst tryggður og hindranir á vinnustað taldar fara gegn lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er mælt með að barnið sé eingöngu á brjósti fyrstu sex mánuðina og að hluta til að tveggja ára aldurs.

Sylvía segir það mikil vonbrigði að það sama gildi ekki fyrir konur í námi. Spurð hvort hún hafi hugsað um að taka sér pásu frá námi á þessari önn segist hún ekki hafa hugleitt það. Hún hafi séð bekkjarsystur sínar koma með sín börn, gefa þeim brjóst og að það hafi ekki neins staðar verið vandamál. Hefði hún vitað að það yrði vandamál hefði ákvörðunin mögulega orðið önnur.

„Ég er einstæð og á hann ein. Ferlið var allt skipulagt og ég hefði getað stjórnað því hvenær ég fór í það. Ég hefði alveg hugsað mig um og klárað kannski skólann fyrst. En stelpurnar hafa hingað til alltaf talað um hvað þetta er þægilegt, að vera með ungbarn og í námi. Þetta er fjarnám og maður stjórnar sér sjálfur og þetta hefur aldrei verið vandamál,“ segir Sylvía. 

Hún viti sömuleiðis af konum í Háskóla Íslands sem hafi verið í tíma með börn sín.

Vildi ekki missa af hópnum

„Ég er búin að vera í þrjú og hálft ár með sama hópi og við erum ótrúlega sterkur og samheldin hópur. Ég tími ekki að missa af hópnum. Ég fór í fjarnám til að sinna námi á mínum forsendum en svo eru lotur sem við þurfum að mæta í. Það er allt í góðu og ég græði yfirleitt mjög mikið á þeim en skólinn verður að koma til móts við okkur og vera sveigjanlegur þegar eitthvað er.“

Sylvía segir að henni þyki leiðinlegt að aðstæður séu svona ólíkar eftir kennurum. Það væri betra að vera með reglur sem gildi fyrir alla í skólanum. Hún hafi ítrekað verið með konum með börn á brjósti í tíma sem kennarar hafi ekki gert neinar athugasemdir við.

„En svo mæti ég í fyrstu lotuna eftir að ég eignast barn og af því að þessi kennari segir nei þá má ég það ekki.“

Snýst um börn en ekki brjóstagjöf

Eyjólfur Guðmundsson rektor háskólans segir málið snúast um börn en ekki brjóstagjöf. Það sé bannað í þessum kúrsi að vera með börn í tímanum og bannið snúi því ekki að brjóstagjöfinni sjálfri heldur veru barna í tíma.

Hann segir að reglan hafi verið sett fyrir einhverjum árum þegar það var algengara að börn komu með foreldrum sínum í tíma.

Eyjólfur er rektor skólans.Háskólinn á Akureyri

„Að sjálfsögðu er gefið rými fyrir nemendur til að sinna barni þegar á því þarf að halda á kennslutíma, en viðvera barnsins allan tímann í kennslustundinni er það sem þetta snýst um.“

Eins og kom fram í frásögn Sylvíu þá drekkur barnið á tveggja tíma fresti, stundum í 40 mínútur í senn. Fái hún ekki að hafa barnið hjá sér í tímanum til að drekka þýðir það að hún gæti misst af meirihluta kennslustundarinnar. Þá hafði hún einnig fordæmi fyrir því að aðrar konur hefðu fengið að hafa börnin hjá sér.

„Það hefur alltaf verið samkomulagsatriði á milli kennara og nemanda í sjálfu sér. Reglan í þessum tiltekna tíma er að það sé ekki hópur af börnum inni í tímanum. Svo þarf viðkomandi að leita samtals við kennara þegar sérstakar aðstæður koma upp,“ segir Eyjólfur.

En hefur það verið vandamál að fólk komi með börnin sín?

„Það var það fyrir einhverjum árum síðan. Þegar reglan var upprunalega sett en mér skilst að það hafi minnkað og aðstæður breyst í samfélaginu.

Hann segir að deildin og sviðið hafi fundað um málið í gær en að kennarar hafi heimild til að ræða við nemendur sína um aðstæður hverju sinni.

Hefur verið kvartað undan börnum í tímum

Birna María Svanbjörnsdóttir deildarforseti kennaradeildar Háskólans á Akureyri tekur undir þessi orð Eyjólfs. Hún segir ákvörðunina um að banna börn í tíma eiga sér þónokkra sögu en að fyrir nokkrum árum hafi það verið nokkuð algengt að foreldrar kæmu með börn sín í tíma. Börn á öllum aldri.

„Þetta er háskóli og nemendur skrá sig inn í kennaranámi, akademísku námi sem það er spennt að taka þátt. Svo kemur það í tíma og er búið að koma sínum börnum fyrir í pössun eða leikskóla. Þá hefur það truflað samnemendur að aðrir hafi með sér börn. Það hefur verið kvartað undan þessu til okkar,“ segir Birna María og að nemendur hafi jafnvel lýst því að þykja óþægilegt að segja nei þegar einhver spyr hvort barnið megi ekki vera með.

Birna María segir að skólinn sé mjög sveigjanlegur og nemendum standi margir kostir til boða þegar erfitt er fyrir þau að mæta í tíma. Mynd/Háskólinn á Akureyri

„Þetta er ein ástæðan sem liggur að baki. Það er virðing við nám allra nemenda. Það er ekki æskilegt í háskólanámi að hafa lítil börn í kennslustundunum. Það er þá virðing fyrir nemendum, að þeir geti verið með samnemendum sínum og kennara og unnið að sínu námi án þess að upplifa truflun af börnum,“ segir Birna María.

Hún segir þetta ekki trufla alla en þetta trufli einhverja og því hafi þetta viðmið verið sett.

Hún segir námið að mestu unnið í fjarnámi en að það séu tvær lotur á önn og þá sé gerð rík krafa um þátttöku. 

„Það er hópavinna og fólk á að vera að kynna eitthvað upp við töflu eða skrifa niður það sem er verið að segja. Ef maður er með lítið barn í fanginu þá er maður ekki ritari og á erfitt með að fara upp að töflu og taka þátt í öllu. Það getur því haft áhrif á virkni þess nemanda sem um ræðir,“ segir hún.

Stofnun fyrir fullorðna

Þá bendir hún á að þegar um ræðir eldri börn þá sé oft verið að ræða viðkvæm málefni eins og einelti eða barnaverndarmál og það sé ekki viðeigandi að börn séu viðstödd fyrir það.

„Þetta er stofnun fyrir fullorðna. Þó að kennaranámið snúist um börn og flestir séu hrifnir af börnum. Þetta snýst ekki um að vilja ekki að hafa börn nálægt sér. Þetta snýst um að halda vörð um námið og aðskilja námið frá litlum börnum.“

Hvað varðar brjóstagjöfina segir Birna María að hún komi málinu ekki við. Það sé heimilt að fara fram og að það sé mikill sveigjanleiki í náminu til að vinna með þeim sem séu með barn á brjósti. Ekki sé dregið af einkunn fyrir að fara fram til að gefa brjóst.

„Ef nemandi er mættur á staðinn, kemur í tíma og er virkur og skreppur fram. Sama hvort það korter eða hálftími á það ekki að draga niður einkunn. Þú getur farið fram. Það eru allskonar sófar, kósíhorn og það eru mjög góðar aðstæður í háskólanum til að gefa börnum brjóst. Það er ekkert sem stoppar það og það er í öllum námskeiðum leyfilegt að foreldri fari fram og gefi börnum sínum brjóst þegar þörf er á.“

Ekki eins hjá öllum

Birna María segir þetta ekki eins hjá öllum kennurum og að það séu fordæmi fyrir því að konur hafi fengið vera með börn sín.

„Þetta er ekki eins í öllum námskeiðum og hver kennari hefur svigrúm til að ákveða hvernig hann byggir upp sitt námskeið. Þetta fer líka eftir því hversu stórt námskeiðið er, hvert viðfangsefnið er og hvernig þau eru uppbyggð.“

Spurð hvort hún telji þurfa að skýra betur stöðu fólks með barn á brjósti segir Birna María að viðvera barna í tímum verði skoðuð betur en að hún telji ekki þörf að skýra neitt hvað varðar brjóstagjöf. Málið snúist ekki um það að þeirra mati. Hvert námskeið sé ólíkt og kennarar taki viðmið af því þegar þeir setji reglur um viðveru barna.

„Það er almennt viðmið að börn séu ekki í námskeiðum í kennslustundum í kennaranáminu. En við höfum ekki sett það sem fasta og órjúfanlega reglu sem er enginn sveigjanleiki við. Það er sveigjanleiki í öllu hjá okkur meira og minna og við höfum alltaf reynt að finna lausnir á því sem kemur upp.“

Birna María segir að það sé ekki skyldumæting í loturnar og að nemendur sem eigi erfitt með að mæta geti sleppt þeim og jafnvel verið fjarverandi í þeim lotum sem hafa minna vægi. En þá fái þau auðvitað ekki einkunn.

Móðir Sylvíu ætlar að fylgja henni norður til að fylgjast með syni hennar á meðan hún er tíma. Hún kemur með hann til hennar til að drekka. Vísir/Vilhelm

„Það eru ýmsir möguleikar í boði,“ segir hún og að auk þess standi nemendum alltaf í boði að bíða með námskeið eða fresta þeim,“ segir hún og að einnig sé mikill sveigjanleiki í boði í náminu til að halda áfram þrátt fyrir barnsburð.

Eru einhverjar sérstakar upplýsingar eða viðbragð hjá skólanum fyrir konur sem eignast börn?

„Nei það eru engin sérstök viðbrögð. Það er mjög mikill sveigjanleiki og við reynum allt sem við getum til að koma til móts við nemendur. En á sama tíma þurfum við að gæta jafnræðis allra nemenda.“

Þannig það verður ekkert endurskoðað að hún fái að sitja inni með barnið?

„Nei, ég geri ekki ráð fyrir því. En hins vegar ætlum við að skoða þetta í skólanum í heild. Hvernig er best að hafa þetta. Það er þá eitthvað sem fer af stað núna. Hvort við viljum setja ákvæði um börn,“ segir Birna María að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×