Innlent

For­setinn sendir skeyti en mæting afþökkuð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðni Th. jóhannesson og Eliza Reid eiga innan við hálft ár eftir í hlutverkum sínum sem forsetahjón Íslands.
Guðni Th. jóhannesson og Eliza Reid eiga innan við hálft ár eftir í hlutverkum sínum sem forsetahjón Íslands. vísir/Vilhelm

Ekki er gert ráð fyrir aðkomu fulltrúa erlendra ríkja til Danmerkur á sunnudag þegar Margrét Þórhildur Danadrottning lætur krúnuna í hendur Friðriks sonar síns. Forseti Íslands mun þó senda heillaskeyti til Danaveldis.

Þetta kemur fram í svari Unu Sighvatsdóttur, sérfræðings hjá embætti forseta Íslands, við fyrirspurn Vísis þess efnis hvort forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid yrðu viðstödd athöfnina.

„Forsetahjón fara ekki til Danmerkur og að ég tel víst enginn ráðherra, enda fengum við þau skilaboð frá prótókól dönsku hallarinnar að ekki sé gert ráð fyrir neinni aðkomu fulltrúa erlendra ríkja við þetta tækifæri. Hinsvegar mun forseti Íslands senda bæði Margréti drottningu og nýjum konungi heillaóskir fyrir hönd íslensku þjóðarinnar,“ segir í svari Unu.

Ekki muni vera hefð í Danmörku fyrir krýningarathöfn, eins og sást í Bretlandi á síðasta ári þegar Karl tók við konungstign. Krúnuskiptin í Danmörku fari fram með mjög látlausum hætti á ríkisráðsfundi klukkan 14:00.

„Þar ritar drottning undir yfirlýsingu um að hún afsali sér krúnunni. Að fundinum loknum mun Mette Frederiksen lýsa því yfir að hans hátign Friðrik X sé konungur Danmerkur, af svölum Kristjánsborgarhallar. Frá þeirri stundu tekur hann við öllum skyldum þjóðhöfðingjans í samræmi við danska stjórnarskrá,“ segir í svari Unu. 

Þá hafi forsetaembættið einnig fengið þær upplýsingar að Margrét Þórhildur muni áfram bera titilinn hennar hátign Margrét drottning, en eiginkona Friðriks fái titilinn hennar hátign María drottning.


Tengdar fréttir

Partýprinsinn sem verður Danakonungur

„Ég mun afhenda syni mínum, Friðriki prins, krúnuna,“ sagði Margrét Þórhildur Danadrottning í áramótaávarpi sínu þar sem hún tilkynnti að hún ætlaði sér að stíga til hliðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×