Innlent

Frestun hval­veiða átti sér ekki nægi­lega skýra stoð í lögum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra. vísir/arnar

Álit Umboðsmanns Alþingis er að reglugerð um frestun upphafs hvalveiða í sumar hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum um hvalveiðar.

Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins. Þar kemur fram að umboðsmaður hafi lokið athugun sinni vegna kvörtunar Hvals hf. um frestun upphafs hvalveiða síðastliðið sumar.

Þá er álit umboðsmanns eins og atvikum var háttað hafi útgáfa og undirbúningur reglugerðarinnar ekki samrýmst kröfum um meðalhóf. Umboðsmaður beinir ekki sérstökum tilmælum til ráðuneytisins um úrbætur. Hann beinir því hins vegar til ráðuneytisins að hafa þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar.

Fellst á skýringar um dýravelferðarsjónarmið

Þá segir að umboðsmaður fallist á skýringar ráðuneytisins um að heimilt sé að líta til dýravelferðarsjónarmiða við setningu reglugerða á grundvelli laga um hvalveiðar. Umboðsmaður bendir jafnframt á að lögunum hafi ekki verið breytt til samræmis við auknar áherslur Alþjóðahvalveiðráðsins um dýravelferð.

Umboðsmaður óskaði í júlí síðastliðnum eftir upplýsingum, skýringum og gögnum vegna reglugerðar um tímabundna frestun á upphafi hvalveiða. Reglugerðin var sett í kjölfar birtingar eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar um veiðar á langreyðum árið 2022 og álits fagráðs um velferð dýra.

Ný reglugerð tók gildi 1. september síðastliðinn sem var ætlað að bæta umgjörð veiða á langreyðum. Með henni var meðal annars brugðist við fyrrgreindum skýrslum Matvælastofnunar og fagráðs um velferð dýra auk skýrslu starfshóps um mat á leiðum til að fækka frávikum við veiðarnar sem var birt í lok ágúst síðastliðinn.

Í ráðuneytinu stendur nú yfir endurskoðun á reglugerðum um hvalveiðar. Tekið verður mið af ábendingum umboðsmanns í þeirri vinnu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×