Fótbolti

Gylfi ekki með gegn Gvate­mala og Hondúras en tveir ný­liðar koma inn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins.
Gylfi Þór Sigurðsson er markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins. vísir/hulda margrét

Gylfi Þór Sigurðsson getur ekki leikið með íslenska landsliðinu í vináttuleikjunum gegn Gvatemala og Hondúras í þessum mánuði.

Gylfi er að glíma við meiðsli og hefur dregið sig út úr landsliðshópnum af þeim sökum. Sömu sögu er að segja af samherja hans hjá Lyngby, Sævari Atla Magnússyni, og Valgeiri Lunddal Friðrikssyni.

Í þeirra stað koma Birnir Snær Ingason, Logi Hrafn Róbertsson og Jason Daði Svanþórsson inn í íslenska hópinn. Þeir tveir fyrstnefndu eru nýliðar en Jason Daði lék þrjá landsleiki fyrir tveimur árum.

Birnir var valinn besti leikmaður Bestu deildarinnar á síðasta tímabili. Hann varð þá tvöfaldur meistari með Víkingi.

Logi leikur með FH og á að baki 56 leiki í efstu deild þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur leikið 26 leiki fyrir yngri landslið Íslands og lék meðal annars með U-19 ára landsliðinu á EM á síðasta ári.

Ísland mætir Gvatemala 13. janúar og Hondúras fjórum dögum síðar. Báðir leikirnir fara fram í Fort Lauderdale í Miami.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×