Fótbolti

Ná­lægt því að fá Kristian sem sé „skrýtið“ núna

Sindri Sverrisson skrifar
Kristian Nökkvi Hlynsson fagnar einu af mörkum sínum fyrir Ajax í vetur. Hann hefur stimplað sig rækilega inn í aðalliðið eftir að hafa verið leikmaður varaliðsins síðustu ár.
Kristian Nökkvi Hlynsson fagnar einu af mörkum sínum fyrir Ajax í vetur. Hann hefur stimplað sig rækilega inn í aðalliðið eftir að hafa verið leikmaður varaliðsins síðustu ár. Getty/Jeroen van den Berg

Ekki mátti miklu muna að Kristian Nökkvi Hlynsson, einn nýjasti A-landsliðsmaður Íslands í fótbolta, færi frá Ajax til De Graafschap í sumar. Í staðinn er hann kominn í stórt hlutverk hjá hollensku risunum.

Frá þessu greinir Peter Bijvelds, yfirmaður íþróttamála hjá De Graafschap, í hlaðvarpsþættinum De Stem van De Viljverberg. Liðið er í toppbaráttu næstefstu deildar Hollands.

„Við enduðum á að fá Simon Colyn [frá PSV] sem nýja „tíu“ [fremsta miðjumann] en ég reyndi samt mikið að fá Hlynsson frá Ajax. Það gekk á endanum ekki upp. Ajax leyfði það ekki en þeir íhuguðu það í nokkurn tíma,“ sagði Bijvelds.

Eftir arfaslakt gengi Ajax í upphafi leiktíðar fór Kristian að fá tækifæri í liðinu og stimplaði sig rækilega inn, en hann hefur nú spilað tólf deildarleiki og skorað fjögur mörk, enn 19 ára gamall. Ajax hefur rokið upp töfluna og er í 5. sæti úrvalsdeildarinnar eftir átta leiki í röð án taps, eftir að hafa verið í fallbaráttu.

„Það frábæra við fótboltann er hvað hlutirnir geta gerst hratt. Núna er hann byrjunarliðsmaður hjá aðalliðinu. Núna er eiginlega skrýtið að ég sé að segja þetta [að Ajax hefði íhugað að láta Kristian fara] en það var fyrir hálfri leiktíð síðan,“ sagði Bijvelds sem tók ekki fram hvort að um möguleg kaup eða lán hefði verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×