Erlent

Þrjá­tíu látnir hið minnsta og fjölda enn leitað

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill fjöldi húsa eyðilagðist í Kanazawa í Ishikawa-héraði í stóra skjálftanum í gær.
Mikill fjöldi húsa eyðilagðist í Kanazawa í Ishikawa-héraði í stóra skjálftanum í gær. AP

Talsmenn yfirvalda í Ishikawa-héraði í Japan hafa staðfest að þrjátíu hið minnsta hafi látið lífið í stóra skjálftanum sem reið í gær og varð til þess að fjöldi bygginga eyðilagðist og flóðbylgja skall á landið. Fjölda fólks er enn leitað.

Um þúsund manna björgunarlið leitar nú að fólki sem talið er að kunni að vera grafið í húsarústum og hefur japanski herinn unnið að því að koma hjálpargögnum til þeirra sem hafa neyðst til að flýja heimili sín. Ýmsar hindranir á vegum – bæði vegna skemmdra húsa, bilaðra bíla og fallinna trjáa – hafa torveldað björgunarstarf.

Skjálftinn mældist 7,6 að stærð og átti upptök sín í Japanshafi, vestur af Japan, um klukkan 16 að staðartíma í gær. Yfirvöld gáfu strax út flóðbylgjuviðvörun og beindi því strax til fólks að leita á hærri stað í landslagi. Flóðbylgjan náði allt að metra að hæð, en flóðbylgjuviðvörunum hefur nú verið aflétt.

Stór markaður brann til kaldra kola í Wajima eftir að eldur kom upp í kjölfar skjálftans. AP

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, segir að eyðilegginguna mikla og ljóst að manntjónið sé mikið.

Talsmenn yfirvalda staðfesta að fimmtán hið minnsta hafi látist í borginni Wajima, sex í Suzu nyrst á Noto-skaganum, og fimm í Nanao. Þá hafa einhverjir fundist látnir í Hakui, Anamizu og Shika.

Talsvert hefur verið um eftirskjálfta frá því að stóri skjálftinn reið yfir í gær og hefur sá stærsti mælst 6 að stærð.


Tengdar fréttir

Enn leitað að fólki eftir jarð­skjálftann í Japan

Að minnsta kosti fimm eru látnir eftir jarðskjálftann sem reið yfir Japan á nýársdag að sögn yfirvalda. Fjöldi húsa eyðilagðist, um 33 þúsund heimili eru án rafmagns og mörg þúsund manns hafa flúið vesturströndina vegna hættu á flóðbylgjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×