Lífið

Versta sjón­varps­efni ársins hjá sumum en fullt hús hjá öðrum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Gnarr í hlutverki leikskólabarns um fimmtugt. Benedikt Erlingsson bíður eftir því að kennari komi að skeina honum.
Jón Gnarr í hlutverki leikskólabarns um fimmtugt. Benedikt Erlingsson bíður eftir því að kennari komi að skeina honum. RÚV

Það þarf vart að koma á óvart að skiptar skoðanir eru á Áramótaskaupinu þetta árið eins og hin fyrri. Besta Skaup nokkru sinni eða algjörlega ömurlegt? Það fer eftir því hvern þú spyrð.

Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson voru leikstjórar Áramótaskaupsins. Þeir eru hvað þekktastir fyrir Hraðfréttir sem voru á dagskrá fyrst á mbl.is og svo á RÚV um árabil.

Handritshöfundar voru þau Þorsteinn Guðmundsson, sem gerði garðinn frægan með Fóstbræðrum. Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi, Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir sem mynduðu gríntvíeykið Þær Tvær og síðust í teyminu er Karen Björg Þorsteinsdóttir, sem er ein af höfundum grínseríunnar Venjulegt fólk ásamt þeim Júlíönu Söru, Völu Kristínu og Fannari.

Útvarpsmaðurinn Rikki Gje liggur ekki á skoðunum sínum og segir skaupið líklega versta sjónvarpsefni á árinu. Þó hafi hann sem stuðningsmaður Manchester United séð það svart á árinu.

Stígur Helgason, fréttamaður á RÚV, hefur ekki náð að mynda sér skoðun á Skaupinu heilt yfir enda ældi dóttir hans á hann þegar Skaupið var hálfnað.

Haukur Bragason, stundum nenfdur Séntilmennið, er ekki að missa sig. Hann segir Skaupið hafa verið helvíti lélegt. Leikskólaatriðið þar sem fullorðið fólk fékk loks leikskólapláss hafi þó verið fyndnasta atriði sem hann hafi séð í 25 ár.

Hrafn Jónsson pistlahöfundur og klippari kallar eftir endurkomu Fóstbræðra. Þó voru þeir sem söknuðu Hilmis Snæs Guðnasonar úr atriðinu.

Samúel Karl Ólason, blaðamaður á Vísi, hló sig máttlausan af leikskólaatriðinu.

Skiptar skoðanir koma Sigurði Mikael Jónssyni, upplýsingafulltrúa og listmálarara af Skaganum, ekki í opna skjöldu. Hann var ánægður með Skaupið og sérstaklega Bjarna Benendiktsson, Ben, sem Ken úr Barbie myndinni.

Jón Kári Eldon grafískur hönnuður var ánægður með sinn mann Benedikt Erlingsson sem lék heldur perralegan gamlingja á leikskóla.

Gunnar Már Elíasson Vestfirðingur elskaði atriðið þegar fyrrnefndur Benedikt datt af stól.

Guðni Halldórsson sem kom að því að klippa Skaupið upplýsir á Twitter að ekki hafi verið nein Fóstbræðrapæling á ferðinni. Sigurjóni Kjartanssyni hafi verið bætt við eftir á.

Arnar Sveinn Geirsson, forseti Leikmannasamtaka Íslands, gefur Skaupinu sex í einkunn. Hann kunni að meta Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann Eflingar í gervigreindaratriði Auðuns Blöndal og Steinda Jr. 

Hvalveiðiatriðið í upphafi Skaupsins bar af að mati Arnar Úlfars Sævarssonar. Hann gaf Skaupinu fjóra af fimm í einkunn.

Guðmundur Hilmarsson blaðamaður á Morgunblaðinu var ánægður og gaf Skaupinu átta af tíu í einkunn. Lokalagið var í uppáhaldi hjá honum.

Ingibjörg Hinriksdóttir, margreyndur stjórnarmaður hjá KSÍ, gaf Skaupinu fullt hús.

Hans Steinar Bjarnason upplýsingafulltrúi og íþróttafréttamaður í hjáverkum hjá RÚV er í skýjunum. Einfaldlega besta Skaup frá upphafi.

Einar Matthías ofurstuðningsmaður Liverpool var ánægður með Skaupið, með þeim betri.

Hörður Snævar Jónsson blaðamaður á 433 gefur Skaupinu nánast fullt hús.

Guðmundur Egill jarðfræðingur elskaði Ara Eldjárn og eldræðu hans í laxeldisatriðinu.

Stefán Máni hafði ekki gaman af ofgnótt íslenskra stjarna í Skaupinu. Virkilega slappt og leiðinlegt fyrir utan leikskólaatriðið títtnefnda.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagðist hafa saknað nokkurra viðburða á árinu í Skaupinu. Það hefði þó verið vel yfir meðallagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×