Innlent

Níu prósentum munar á Sam­fylkingu og Sjálf­stæðis­flokknum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kristrún Frostadóttir og félagar í Samfylkingunni enda árið með mest fylgi samkvæmt nýrri könnun Maskínu.
Kristrún Frostadóttir og félagar í Samfylkingunni enda árið með mest fylgi samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Vísir/Vilhelm

Fylgi Samfylkingarinnar eykst lítillega á milli mánaða og mælist nú rúmlega 26 prósent samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Fylgi Sjálfstæðisflokks dalar lítillega á milli mánaða og mælist nú rúm 17 prósent. 

Fylgi Framsóknar mælist rétt tæp 10 prósent og fylgi Vinstri grænna rúmlega fimm og hálft prósent. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samanlagt með 32,8 prósent fylgi, sex og hálfu prósentustigi meira en Samfylkingin.

Viðreisn mælist með rúm tólf prósent, Flokkur fólksins tæp sjö, Sósíalistar með rúm fjögur prósent, Miðflokkurinn rúm níu prósent og Píratar átta prósent.

Þá var einnig spurt hversu vel eða illa ríkisstjórnarflokkunum hefði tekist að koma sínum málefnum til framkvæmda í ríkisstjórnarsamstarfinu. 

57 prósentum svarenda þykir VG hafa tekist illa eða alls ekki að koma málefnum sínum til framkvæmda, en 13 prósent telja það hafa tekist vel hjá flokknum. Rúmum 35 prósentum þótti þá Framsóknarflokknum hafa tekist illa til við að koma málefnum sínum á framfæri, en tæp 17 prósent töldu það hafa tekist vel hjá flokknum. 

Yfir 30 prósent sögðu Sjálfstæðisflokknum hafa tekist vel til, en tæp 38 prósent sögðu hið gagnstæða, að flokknum hefði illa eða alls ekki tekist að koma málefnum sínum til framkvæmda í samstarfinu.

Eins var spurt hvaða ráðherrar hefðu staðið sig best og verst á yfirstandandi kjörtímabili. Sá ráðherra sem svarendur sem tóku afstöðu töldu hafa staðið sig best var Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra með 9,7 prósent. 

Næst á eftir kom Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, með 7,2 prósent. Tæp 34 prósent töldu þó að enginn einn ráðherra hefði staðið sig best. Á hinum enda skalans voru 45,5 prósent sem töldu Bjarna Benediktsson hafa staðið sig verst, en 14,6 prósent töldu Svandísi hafa staðið sig verst.


Tengdar fréttir

Óvinsældir Bjarna sláandi

Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði segir óvinsældir Bjarna Benediktssonar samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Maskínu sláandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×