Erlent

Disney kærir bílaþvottastöð í Síle

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Bílaþvottastöðin síleska Star Wash segir mál Disney-samsteypunnar ekki standast skoðun.
Bílaþvottastöðin síleska Star Wash segir mál Disney-samsteypunnar ekki standast skoðun. Vísir/Samsett

Lucasfilm, fyrirtæki í eigu Disney-samsteypunnar sem framleiddi Stjörnustríðsmyndirnar og myndirnar um Indiana Jones, er að kæra síleska bílaþvottastöð fyrir vörumerkjastuld.

Bílaþvottastöðin er staðsett í Santíagó, höfuðborg Síle, og ber nafnið Star Wash sem er vitnun í Stjörnustríð. Þar geta viðskiptavinir fengið bílaþvott frá frægum persónum kvikmyndanna og þáttanna en Disney-samsteypan lítur svo á að verið sé að nota vörumerki í þeirra eigu á ólögmætan hátt.

Svarthöfði þvær rúður

Á samfélagsmiðlum Star Wash má sjá þjónustuna sem fyrirtækið síleska býður upp á. Þar sést Loðinn og stormsveitamann þvo vélarhlífar, Boba Fett að smúla og Svarthöfða beita mættinum til að hreinsa rúður.

Reuters greinir frá því að eigandi stöðvarinnar Matias Jara hafi verið í umsóknarferli um vörumerkið hjá höfundarréttarstofnun Síle þegar honum barst kæra frá framleiðslufyrirtækinu Lucasfilm. Lögfræðingar Matiasar hafi sagt að fyrirtækið vildi koma í veg fyrir vörumerkjarskráninguna á grundvelli þess að það geti ruglað fólk og fengið það til að halda að bílaþvottastöðin væri í einhvers konar samstarfi við Disney-samsteypuna.

Málflutningur Disney eigi ekki við rök að styðjast

Matias er ósammála þessu og heldur því fram að nafnið sé nógu frábrugðið höfundarréttarvörðu nafni Stjörnustríðsmyndanna til þess að afstýra ruglingi og aðhöfundarréttur samsteypunnar nái ekki yfir bílaþvott.

Matias segir að dóttir sín eigi hugmyndina að nafninu þegar fjölskyldan heimsótti skemmtigarð Disney í Bandaríkjunum. Hann tekur fram að bílaþvottastöðin sín framleiði ekki bíómyndir né selji hún vörur Disney eða neitt slíkt en að hún sé þó alveg frábær bílaþvottastöð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×