Erlent

Kvensjúkdómalæknir fundinn sekur um þjóðar­morð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um 800 þúsund einstaklingar voru myrtir á 100 dögum í Rúanda árið 1994, flestir af Tútsí-ættbálknum.
Um 800 þúsund einstaklingar voru myrtir á 100 dögum í Rúanda árið 1994, flestir af Tútsí-ættbálknum. Getty/Ben Birchall

Sosthene Munyemana, 68 ára fyrrverandi kvensjúkdómalæknir, hefur verið dæmdur í 24 ára fangelsi í Frakklandi fyrir aðkomu sína að þjóðarmorði Hútúa á Tútsí-mönnum í Rúanda árið 1994.

Munyemana var fundinn sekur um þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu en hann var meðal annars sagður hafa átt aðkomu að drögum stuðningsyfirlýsingar við stjórnvöld, þar sem hvatt var til þjóðamorðs. Þá var hann sagður hafa tekið þátt í því að fanga fólk í Butare, þar sem því var haldið þar til það var myrt.

Munyemana hyggst áfrýja dómnum.

Hann hefur haldið fram sakleysi sínu og segist hafa verið hófsamur Hútúi og hafa freistað þess að bjarga Tútsí-mönnum með því að bjóða þeim skjól í opinberum byggingum í Butare, þar sem hann bjó.

Munyemana var náin samstarfsmaður Jean Kambanda, sem fór fyrir bráðabirgðastjórninni sem var skipuð eftir að flugvél þáverandi forseta, Juvénal Habyarimana, var skotin niður.

Kæra var lögð fram gegn Munyemana í Bordeaux árið 1995 en hann var ákærður árið 2011.

Um er að ræða sjöttu réttarhöldin í Frakklandi vegna þjóðarmorðsins í Rúanda en margir sem voru bendlaðir við glæpinn flúðu þangað. Frakkar hafa verið sakaðir um að hafa verið tregir til að framselja umrædda einstaklinga eða draga þá fyrir dóm.

Um 800 þúsund einstaklingar voru myrtir á 100 dögum í Rúanda árið 1994, flestir af Tútsí-ættbálknum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×