Innlent

Lúð­vík skipaður for­stjóri Heil­brigðis­stofnunar Vest­fjarða

Atli Ísleifsson skrifar
Lúðvík Þorgeirsson.
Lúðvík Þorgeirsson. Stjr

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað Lúðvík Þorgeirsson í embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til næstu fimm ára, frá 1. mars 2024. Lúðvík hefur síðustu ár starfað sem rekstrarstjóri hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Hann tekur við stöðunni af Gylfa Ólafssyni. 

Í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að lögskipuð hæfnisnefnd sem meti hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana hafi metið Lúðvík hæfastan umsækjenda til að gegna embættinu.

„Lúðvík er viðskiptafræðingur með M.Sc gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og leggur stund á nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands með áherslu á mannauðsstjórnun. Síðastliðin fjögur ár hefur Lúðvík gegnt stöðu rekstrarstjóra hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Áður starfaði hann m.a. hjá Fjármálaeftirlitinu þar sem hann stýrði greiningasviði á einu af þremur kjarnasviðum embættisins. Hann var um tíma framkvæmdastjóri vátrygginga og staðgengill forstjóra hjá European Risk Insurance Company í Englandi. Um árabil var hann forstöðumaður vátrygginga og áhættumats hjá Actavis Group hf. og þar áður forstöðumaður fimmtán útbúa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um allt land.

Í mati hæfnisnefndar er lögð áhersla á fjölþætta og langvarandi reynslu Lúðvíks af rekstri og áætlanagerð. Enn fremur hafi hann langvarandi reynslu á sviði stjórnunar, stefnumótunar og mannauðsstjórnunar og hafi auk þess góða innsýn í stjórnsýslu. Það er mat nefndarinnar að Lúðvík sé góður leiðtogi og vel hæfur til að gegna embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða,“ segir í tilkynningunni


Tengdar fréttir

Störf Markúsar og Gylfa auglýst til umsóknar

Embætti forstjóra tveggja heilbrigðisstofnana hafa verið auglýst til umsóknar. Annar núverandi forstjóra hefur tilkynnt það að hann sé að hætta en hinn hefur greint frá ágreiningi við heilbrigðisráðherra. 

Fjórir sóttu um em­bætti HVest

Fjórir sóttu um embætti forstjóra HVest. Forstjóri sagði af sér í september. Núverandi og tímabundinn forstjóri er ekki meðal umsækjenda um starfið. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×