Um­fjöllun: Zor­ya Luhansk - Breiða­blik 4-0 | Mar­traða­endir á Evrópu­ævin­týrinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Leikmenn Breiðabliks fyrir leik kvöldsins.
Leikmenn Breiðabliks fyrir leik kvöldsins. Breiðablik

Breiðablik tapaði síðasta leik sínum í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar 4-0 gegn Zorya Luhansk. Þar með lauk Evrópuævintýri þeirra þetta tímabilið en Breiðablik varð fyrsta íslenska liðið til að komast alla leið í riðlakeppnina. Þeir töpuðu þar öllum sex leikjunum með –13 markatölu.

Lengsta mögulega leið

Breiðablik fór sömuleiðis lengstu leið sem nokkurt lið hefur farið að riðlakeppni. Leið sem hófst á Kópavogsvelli þann 27. júní á forkeppni fyrir undankeppni Meistaradeildarinnar. Tre Penne og Buducnorost lágu þá í valnum, leiðin lá svo til Írlands þar sem Breiðablik vann óvænt einvígi sitt gegn Shamrock Rovers.

Stóra prófið þreyttu þeir svo í næstu umferð gegn FC Kaupmannahöfn. Virðingarverð frammistaða skilaði þeim því miður engum úrslitum þar, en engin örvænting átti sér stað því Blikarnir höfðu tvö tækifæri til viðbótar.

Fyrri sénsinn fór strax eftir 6-2 tap gegn Zrinjski Mostar á útivelli, seinni leikurinn vannst svo með einu marki og gaf Blikunum von fyrir einvígið gegn N-Makedóníska liðinu Struga. Það einvígi unnu Blikar örugglega, 2-0 samtals, og tryggðu sig í riðlakeppnina eftir 10 undankeppnisleiki.

Hryllilegt upphaf að endinum

Gengið í fyrstu leikjum riðlakeppninnar var hins vegar ekki gott og engin breyting varð á því í kvöld. Annan útileikinn í röð voru Blikar óstyrkir í öftustu línu á upphafsmínútunum og hleyptu heimamönnum þremur mörkum yfir eftir aðeins tuttugu mínútna leik. 

Fyrsta markið kom eftir hreinsun Antons Ara frá marki. Zorya menn unnu boltann strax og komu honum upp á Guerrero sem kláraði færið. Damir Muminovic setti boltann svo í eigið net á 11. mínútu, skoppandi fyrirgjöf frá vinstri kanti í svæðið milli markmanns og varnar. Maðurinn sem sendingin var ætluð reyndist rangstæður en þar sem hann þurfti ekki að gera neina atlögu að boltanum lyfti línuvörðurinn flagginu ekki upp.

Petar Micin skoraði síðan þriðja markið á 19. mínútu. Markið kom úr hraðri skyndisókn eftir aukaspyrnu Breiðabliks á hinum vallarhelmingnum. Markvörðurinn greip svifbolta frá Höskuldi og sparkaði honum strax upp völlinn. Anton Ari mætti sóknarmanninum galvaskur en hann gerði vel, sólaði sig framhjá Antoni og lagði boltann í netið.

Héldu boltanum betur og hausnum uppi

Martraðabyrjun fyrir Breiðablik en þeir héldu andliti og byrjuðu að spila betur. Kristinn Steindórsson og Viktor Karl áttu báðir ágætis hálffæri en hættulegasta marktilraunin kom óvart frá Jasoni Daða þegar miðvörður Zorya missti boltann frá sér og tæklaði hann svo af Jasoni og næstum því í eigið net.

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, ákvað að efla sóknarleikinn fyrir seinni hálfleikinn og setti Kristófer Inga Kristinsson inn fyrir Andra Yeoman. Það skilaði engum stórkostlegum árangri, Blikar sköpuðu sér fá dauðafæri og þrátt fyrir að vera meira með boltann voru Zorya menn sífellt að ógna og virtust alltaf líklegri til að skora.

Ihor Horbach skoraði svo fjórða og síðasta mark leiksins á 76. mínútu, sending miðvarðarins Batahov rann meðfram jörðinni framhjá öllum miðju- og varnarmönnum Blika, inn fyrir á Horbach sem setti boltann milli fóta Antons Ara og í netið.

Afar slæmur endir á annars ánægjulegum árangri Breiðabliks.

Af hverju vann Zorya Luhansk?

Voru fastir fyrir, unnu návígin og gerðu Blikana skelkaða frá fyrstu mínútu. Voru síógnandi í skyndisóknum og nýttu færin sem þeir fengu vel.

Hverjir stóðu upp úr?

Enginn leikmaður Breiðabliks spilaði sinn besta leik í kvöld og það er erfitt að upphefja einhvern eftir svo slæmt tap.

Hvað gekk illa?

Breiðablik var litla liðið í kvöld. Leyfðu heimamönnum algjörlega að stjórna leiknum, virkuðu smeykir og lentu verðskuldað undir snemma í leiknum. Stigu ágætlega upp og brotnuðu ekki algjörlega en hefðu betur mætt klárir til leiks frá fyrstu mínútu.

Hvað gerist næst?

Breiðablik og Zorya Luhansk eru bæði úr leik. Maccabi Tel Aviv vann riðilinn og Gent fylgir þeim upp. Dregið verður í 16-liða úrslit næsta mánudag kl. 11:00 í beinni útsendingu á Viaplay. 

Breiðablik endaði í 3. sæti Bestu deildarinnar og gefst aftur tækifæri að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar á næsta tímabili en leiðin verður öllu erfiðari fyrir þá. 


Tengdar fréttir

Breiða­blik sigraði Bose-mótið

Breiðablik sigraði Íslands- og bikarmeistara Víkings í Bose-mótinu í knattspyrnu, lokatölur á Kópavogsvelli 3-1 Blikum í vil.

Síðasti séns á stórum jólabónus

Karlalið Breiðabliks spilar sinn síðasta leik á löngu keppnistímabili í kvöld, þegar lokaumferð riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta fer fram. Félagið gæti tryggt sér 75 milljónir króna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira