Breiðablik mætir úkraínska liðinu Zorya Luhansk í kvöld, og fer leikurinn fram í pólsku borginni Lublin vegna stríðsins í Úkraínu.
Blikar eru enn án stiga í sínum riðli en töpuðu 1-0 gegn Zorya á heimavelli í október, og hafa einnig tapað naumlega í leikjum gegn Maccabi Tel Aviv og Gent.
Blikar hafa því ekki unnið sér inn neitt aukaverðlaunafé, eftir að þeir komust fyrstir íslenskra liða í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Í boði eru 500.000 evrur fyrir hvern sigurleik, svo að ef að Blikum tekst að landa sigri í kvöld bíða þeirra 75 milljónir íslenskra króna. Fyrir að ná jafntefli fæst öllu minna eða 166.000 evrur, jafnvirði 25 milljóna króna.
Búnir að ná hálfum milljarði
Með því að komast í riðlakeppnina tryggðu Blikar sér 2,94 milljónir evra, sem í dag jafngildir um 440 milljónum króna, til viðbótar við lægri upphæðir sem liðið fékk vegna þátttöku í undankeppnum í sumar.
Alls höfðu Blikar því tryggt sér um 3,4 milljónir evra, sem á gengi dagsins í dag er meira en hálfur milljarður króna, áður en riðlakeppnin hófst en við það hefur hins vegar hingað til ekki bæst neitt verðlaunafé. Vert er að taka fram að þátttöku í Evrópukeppni, með tilheyrandi ferðalögum og hótelgistingu, fylgir kostnaður.
Ljóst er að hvernig sem fer í kvöld þá enda Blikar í neðsta sæti síns riðils, B-riðilsins. Gent er efst með 13 stig og Maccabi Tel Aviv er með 12, en Zorya 4 stig. Gent og Maccabi spila um efsta sæti riðilsins í kvöld og liðið sem endar efst fær 650.000 evrur, en liðið í 2. sæti fær 325.000 evrur.
Leikur Zorya og Breiðabliks hefst klukkan 20 í kvöld og er í beinni útsendingu á Vodafone Sport.