Innlent

Ó­heimilt verði að fljúga með hunda og ketti í far­þega­rými

Atli Ísleifsson skrifar
Markmið reglugerðarinnar er að tryggja heilbrigði dýra og manna með því að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins. Myndin er úr safni.
Markmið reglugerðarinnar er að tryggja heilbrigði dýra og manna með því að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins. Myndin er úr safni. Getty

Óheimilt verður að flytja hunda og ketti til landsins í farþegarými flugvéla samkvæmt drögum að breytingu á reglugerð um innflutning hunda og katta.

Drögin hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Á vef Icelandair segir nú að hægt hafi verið að bóka ketti, hunda og önnur gæludýr í flutning á sérstökum loftræstum flutningssvæðum í farangursrými vélarinnar í flestu flugi Icelandair, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Á vef Play segir að ekki sé boðið upp á flutning dýra, nema þá leiðsögu og þjónustuhunda.

Um reglugerðina segir að hún hafi það að markmiði að tryggja heilbrigði dýra og manna með því að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins.

„Tillögurnar eru byggðar á mati og greiningu Matvælastofnunar. Breytingarnar sem lagðar eru til á gildandi regluverki lúta að því að samræma ákvæði reglugerðarinnar og laga nr. 54/1990 um innflutning dýra og að því að tryggja að markmiði regluverksins sé gætt um að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins. Einnig lúta breytingarnar að því hlutverki Matvælastofnunar að endurmeta reglulega Viðauka I, þ.e. landlista og flokkun útflutningslanda m.t.t. dýrasjúkdómastöðu.“

Samkvæmt drögunum að breytingum verður Matvælastofnun einnig gert heimilt að gefa kost á að dýr sem flutt séu inn ólöglega eða uppfylli ekki innflutningsskilyrði verði send úr landi sé smitvörnum ekki ógnað. Núgildandi grein kveður einungis á um að dýrinu skuli fargað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×