Erlent

Öryggis­ráðið greiðir at­kvæði um til­lögu um tafar­laust vopna­hlé

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Öryggisráðið kemur saman í dag og greiðir atkvæði um tillögu um vopnahlé.
Öryggisráðið kemur saman í dag og greiðir atkvæði um tillögu um vopnahlé. AP/Eduardo Munoz

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun koma saman í dag og greiða atkvæði um tillögu um vopnahlé á Gasa. 

António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, virkjaði 99. grein stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna í gær og sendi erindi á forseta Öryggisráðsins þar sem hann sagði algjört hrun yfirvofandi á Gasa.

99. greinin hljóðar þannig:

„Aðalforstjórinn getur vakið athygli öryggisráðsins á hverju því máli, sem að hans dómi kann að stofna í hættu varðveizlu heimsfriðar og öryggis.“

Guterres sagði að undir stöðugum loftárásum Ísraelshers og þar sem íbúar hefðu ekki í neitt skjól að venda né bjargir til að bjarga lífi og limum gerði hann ráð fyrir algjöru samfélagslegu hruni. Í kjölfarið  yrði öll neyðaraðstoð á svæðinu ómöguleg.

Í kjölfar erindis Guterres lögðu fulltrúar Sameinuðu arabísku furstadæmana fram drög að tillögunni sem tekin verður fyrir í Öryggisráðinu í dag, samkvæmt sendinefnd Ekvador, sem fer fyrir ráðinu í desember og ræður dagskrá þess.

AFP komst yfir drögin í gær og þar er ástandinu á Gasa lýst sem hörmulegu og tafarlauss vopnahlés krafist. Þá er farið fram á vernd borgara, lausn gísla í haldi Hamas og að neyðaraðstoð verði hleypt inn á svæðið.

Bandaríkjamenn hafa hingað til staðið staðfastlega við bak Ísraelsmanna og neitað áköllum um vopnahlé. Þeir segja nýja tillögu í Öryggisráðinu ekki gagnlega á þessum tímapunkti.

Þá sagði Eli Cohen, utanríkisráðherra Ísrael, ákvörðun Guterres um að virkja 99. greinina „ógn við heimsfrið“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×