Erlent

Segist að­eins myndu verða ein­ræðis­herra fyrsta daginn í Hvíta húsinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á hefðbundnum kosningafundum er kjósendum gefinn kostur á því að spyrja frambjóðendur spjörunum úr en Trump svaraði aðeins spurningum Hannity.
Á hefðbundnum kosningafundum er kjósendum gefinn kostur á því að spyrja frambjóðendur spjörunum úr en Trump svaraði aðeins spurningum Hannity. Getty/Scott Olson

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðandi, neitaði því ekki á kosningafundi í gær að hann myndi nota vald sitt til að ná fram hefndum kæmist hann aftur í Hvíta húsið.

Þriðju kappræður forsetaefna Repúblikanaflokksins fara fram í kvöld en Trump verður fjarri góðu gamni, líkt og í fyrri skiptin. Hann svaraði hins vegar spurningum Sean Hannity, sjónvarpsmanns hjá Fox News og ötuls stuðningsmanns Trumps, í gær.

Trump hefur ítrekað hótað því að grípa til aðgerða til að ná sér niður á óvinum sínum, með því meðal annars að láta menn fjúka og beita forsetavaldinu óhóflega.

Hann var vígreifur í gær þegar Hannity spurði hann í seinna skiptið hvort hann gæti lofað kjósendum því að hann myndi ekki misbeita valdi sínu til að ná fram hefndum ef hann kæmist aftur í Hvíta húsið.

„Ekki nema á fyrsta degi,“ svaraði Trump.

Sagðist hann myndu nota valdheimildir sínar til að loka landamærunum að Mexíkó og „bora, bora, bora“ eftir olíu. „Eftir það er ég ekki einræðisherra,“ bætti hann við.

Trump hafði þá þegar svarað fyrri spurningu Hannity sama efnis, um það hvort hann myndi misbeita valdi sínu til að ná fram hefndum, á þann veg að saka Demókrata um misbeitingu valds.

„Donald Trump hefur verið að segja okkur nákvæmlega hvað hann hyggst gera ef hann nær kjöri á ný og í kvöld sagði hann að hann yrði einræðisherra á fyrsta degi. Bandaríkjamenn ættu að taka hann trúanlegan,“ sagði kosningastjóri Joe Biden Bandaríkjaforseta í yfirlýsingu eftir viðtal Hannity við Trump.

Demókratar hafa ítrekað sagt að Bandaríkjunum standi ógn af mögulegu öðru kjörtímabili Trump sem forseta en sjálfur hefur hann skotið fast til baka og sagt dómsmálin gegn sér til marks um misnotkun valds af hálfu Biden.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×