Fótbolti

Ís­land mætir tveimur lakari liðum á heima­velli Messis

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland spilaði síðast gegn Portúgal, í Þjóðadeildinni í nóvember, en mun ekki geta nýtt alla sína bestu leikmenn í leikjunum í janúar því ekki er um opinbera landsleikjadaga að ræða.
Ísland spilaði síðast gegn Portúgal, í Þjóðadeildinni í nóvember, en mun ekki geta nýtt alla sína bestu leikmenn í leikjunum í janúar því ekki er um opinbera landsleikjadaga að ræða. EPA-EFE/RODRIGO ANTUNES

Knattspyrnusamband Íslands hefur nú greint frá því hverjir andstæðingar karlalandsliðsins í fótbolta verða í tveimur vináttulandsleikjum í janúar.

Ísland mun mæta Gvatemala þann 13. Janúar og svo Hondúras fjórum dögum síðar. Báðir leikirnir fara fram á Drive Pink Stadium í Flórída, heimavelli Inter Miami sem sjálfur Lionel Messi spilar með og er í eigu David Beckham.

Leikirnir eru ekki á opinberum landsleikjadögum FIFA og því er félagsliðum ekki skylt að gefa leikmönnum leyfi til að fara í leikina. Því er ljóst að aðeins hluti þeirra leikmanna sem koma til með að mæta Ísrael (og svo vonandi Bosníu eða Úkraínu) í umspilinu í mars verður með í janúar.

Miðað við heimslista FIFA eru bæði Hondúras og Gvatemala lakari landslið en Ísland. Lið Hondúras er í 76. sæti heimslistans, fimm sætum fyrir neðan Ísland, og Gvatemala er svo í 108. sæti listans. Ísland hefur aldrei mætt þessum landsliðum.

Bæði liðin tilheyra knattspyrnusambandi Mið- og Norður-Ameríku og hafa nýverið spilað við Jamaíku, lið Heimis Hallgrímssonar, svo það ættu að vera hæg heimatökin að leita upplýsinga hjá Eyjamanninum, kjósi Åge Hareide að gera svo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×