Innlent

Reykjalundur myglaður: Stjórn­völd verði að hjálpa

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Pétur Magnússon er forstjóri Reykjalundar.
Pétur Magnússon er forstjóri Reykjalundar. einar árnason

Forstjóri Reykjalundar segir stjórnvöld verða að stíga inn í og greiða fyrir viðhald á húsnæði stofnunarinnar, en stórum hluta af húsnæðinu verður lokað á morgun. Allt verði reynt til að staðan hafi ekki áhrif á þjónustu við sjúklinga.

Starfsfólki og sjúklingum Reykjalundar var í dag tilkynnt að stórum hluta af húsnæði stofnunarinnar verði lokað á morgun vegna heilsuspillandi aðstæðna. Forsvarsmenn Reykjalundar ákváðu fyrr á árinu að framkvæma úttekt á stöðu húsnæðisins vegna gruns um myglu og var niðurstaðan sú að óheilnæmt væri að dvelja í húsnæðinu.

Tveimur álmum verður lokað ásamt nokkrum minni hlutum. Þá verður öllum útihúsum lokað sem hýsa sjúklinga sem þurfa að sækja þjónustuna en búa úti á landi.

Forstjórinn segir að óvíst hve langan tíma taki að koma húsnæðinu í ásættanlegt horf. Allt verði gert til að staðan hafi ekki áhrif á þjónustu við sjúklinga.

„Það eru 32 starfsmenn að missa sína vinnuaðstöðu við þessar breytingar af 180 og við erum í þessum töluðu orðum að púsla því saman hvernig við getum fært til fólk þannig að það verði sem allra, allra minnst skerðing á þjónustu,“ segir Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar.

Sorglegt

SÍBS er eigandi húsnæðisins en Pétur segir samtökin ekki hafa fengið neina styrki frá ríkinu til viðhalds á húsnæðinu í gegnum árin.

„Sem er mjög sorglegt og það þarf að ganga í það mál að ríkið komi að málum hér, að það greiði fyrir viðhald á þessu húsnæði eins og það gerir víða annars staðar.“

Enda segir hann óeðlilegt að viðhald á stærstu endurhæfingarstofnun landsins fari eftir því hvernig góðgerðasamtökum gengur að safna pening.

„Það er sjálfsagt að þeirra fjármagn eigi að fara í að byggja fyrir okkur nýtt íþróttahús eða sundlaug eða eitthvað slíkt en daglegt viðhald á að sjálfsögðu að vera greitt af ríkinu sem við erum að þjónusta rétt eins og mjög víða annars staðar í samfélaginu þar sem ríkið greiðir fyrir húsnæði í heilbrigðisþjónustu og ýmsrar annarrar þjónustu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×