Enski boltinn

Fá að spila á­fram þrátt fyrir á­sakanir um kyn­ferðis­brot eða heimilis­of­beldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni hafa verið sakaðir um kynferðisbrot en fengið samt að spila áfram.
Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni hafa verið sakaðir um kynferðisbrot en fengið samt að spila áfram. Getty/Catherine Ivill

Lið í ensku úrvalsdeildinni hafa haldið áfram að spila leikmönnum vitandi það að þeir hafa fengið á sig ásakanir um kynferðisbrot eða heimilisofbeldi.

Tveir leikmenn í deildinni eru að spila í deildinni í dag þrátt fyrir að lögreglan sé að rannsaka ásakanir á hendur þeim.

Breska ríkisútvarpið fjallar um þetta mál á vef sínum og þar kemur fram að meintir þolendur leikmannanna segi að enska úrvalsdeildin setji hagsmuni deildarinnar ofar öryggi kvennanna. Blaðakonan Hannah Price hefur eytt meira en ári í að safna að sér upplýsingum um þetta mál.

Þessar konur sem Price ræddi við lýsa líka ótta vegna viðbragða við því að koma fram og segja frá.

Blaðamenn breska ríkisútvarpsins hefur komist að því að sjö af tuttugu liðum ensku úrvalsdeildarinnar hafa verið með leikmann eða stjóra sem hefur verið undir rannsókn vegna kynferðisbrota.

Frægð leikmanna hefur kallað á þá kröfu að leikmenn megi ekki spila á meðan mál þeirra hafa ekki verið rannsökuð að fullu.

Sumar konurnar hafa látið bæði ensku knattspyrnusambandið og ensku úrvalsdeildina vita en hafi á móti upplifað þöggun, sein svör, skort á gegnsæi eða bara engin viðbrögð.

Ein kona sagði BBC frá því að skortur á viðbrögðum frá sambandinu, þegar hún tilkynnti að sér hafi verið nauðgað af leikmanni, hafi leitt til ákvörðun hennar að reyna að taka sitt eigið líf.

„Ég vildi ekki vera hluti af heimi þar sem ég var stöðugt minnt á það að engin hlusti á ásakanir um nauðgun ef sökudólgurinn er bara nógu hæfileikaríkur,“ sagði umrædd kona.

Það má lesa umfjöllun breska ríkisútvarpsins með því að smella hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×