Innlent

Unnið að lausn hjá líf­eyris­sjóðum fyrir Grind­víkinga

Lovísa Arnardóttir skrifar
Lífeyrissjóðir kanna nú hvort hægt sé að aðstoða Grindvíkinga betur sem eru með húsnæðislán sín í lífeyrissjóðunum.
Lífeyrissjóðir kanna nú hvort hægt sé að aðstoða Grindvíkinga betur sem eru með húsnæðislán sín í lífeyrissjóðunum. Vísir/Vilhelm

Landssamtök lífeyrissjóða segjast ekki hafa verið höfð með í ráðum þegar kynnt var heildstæð lausn frá lánastofnunum til Grindvíkinga. Unnið sé að lausn með aðkomu lífeyrissjóðanna sem sagt er að þurfi að rúmast innan ramma laga. 

Landssamtök lífeyrissjóða vinna nú að því að kanna hvernig þeir geta, innan ramma laganna, tekið þátt í því að mæta erfiðum aðstæðum heimila og fjölskyldna í Grindavík. Formenn verkalýðsfélaga í Grindavík gagnrýndu það fyrr í vikunni að lífeyrissjóðirnir byðu ekki sömu kjör og aðrar lánastofnanir til þeirra Grindvíkinga sem eru með húsnæðislánin sín hjá lífeyrissjóði. Þar kom fram að um væri að ræða um hundrað húsnæðislán. 

Í tilkynningu frá landssamtökunum segir að lífeyrissjóðirnir hafi þegar tryggt tímabundið greiðsluskjól vegna sjóðfélagalána og á meðan það stendur frestast án viðurlaga, greiðsla afborgana, vaxta og verðbóta.

Þar kemur enn fremur fram að ákvörðun bankanna um að fella niður vexti og verðbætur til þriggja mánaða vegna húsnæðislána hafi verið kynnt sem hluti af heildstæðri lausn og hafi verið með aðkomu stjórnvalda.

„Lífeyrissjóðir voru ekki hafðir með í ráðum vegna þessa samkomulags og ljóst að vinna þarf á breiðum grunni með stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins að því að kanna hvaða lausnir koma til greina af hálfu lífeyrissjóða. Þetta samtal hefur ekki átt sér stað,“ segir í tilkynningu landssamtakanna og að unnið verði að lausn með aðkomu lífeyrissjóða næstu daga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×