Fótbolti

Blikar mæta Mac­cabi Tel Aviv á Kópa­vogs­velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Blikar fá að spila á heimavelli.
Blikar fá að spila á heimavelli. Vísir/Hulda Margrét

Leikur Breiðabliks og Maccabi Tel Aviv í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu mun fara fram á Kópavogsvelli. Líkt og aðrir heimaleikir Breiðabliks átti leikurinn að fara fram á Laugardalsvelli en vetur konungur hefur sett strik í reikninginn.

Breiðablik hefur til þessa leikið heimaleiki sína á Laugardalsvelli þar sem Kópavogsvöllur uppfyllir ekki kröfur UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu. Það hefur hins vegar verið erfitt að halda Laugardalsvelli við eins og Vísir hefur greint frá.

Nú hefur UEFA gefið út að leikur Breiðabliks og Maccabi Tel Aviv frá Ísrael muni fara fram á Kópavogsvelli þar sem veðurskilyrði þýða að einfaldlega sé ekki hægt að spila í Laugardalnum. Athygli vekur að leikurinn er klukkan 13.00 en ekki 17.45 eða 20.00 eins og vanalegt er í Sambandsdeildinni. 

Gestirnir eru í 2. sæti með 9 stig að loknum fjórum umferðum á meðan Breiðablik situr á botni B-riðils án stiga. 

Leikurinn hefst klukkan 13.00 á fimmtudag og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×