Evrópu­meistararnir með fullt hús stiga eftir magnaða endur­komu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigurmarkinu fagnað.
Sigurmarkinu fagnað. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Evrópumeistarar Manchester City þurftu að hafa fyrir hlutunum gegn RB Leipzig í kvöld þegar liðið vann RB Leipzig 3-2 í Manchester. Staðan í hálfleik var 0-2 en þrjú mörk í síðari hálfleik tryggðu sigurinn og fullkominn árangur heimamanna í Meistaradeildinni til þessa.

Man City hefur verið nær óstöðvandi á heimavelli undanfarin misseri en eftir jafntefli við Liverpool í ensku úrvalsdeildinni þá fundu gestirnir lyktina af blóði og voru ekkert að tvínóna við hlutina.

Leipzig komst yfir strax á 13. mínútu. Lois Openda með markið eftir klaufagang í vörn heimamanna. Stoðsendinguna átti Janis Blaswich, markvörður Leipzig. Openda tvöfaldaði svo forystu Leipzig á 33. mínútu eftir undirbúning Xavi Simons. Staðan óvænt orðin 0-2 og þannig var hún í hálfleik.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik minnkaði Man City muninn. Phil Foden stakk boltanum í gegnum vörn Leipzig og Erling Braut Håland skilaði honum í netið. 

Foden sjálfur jafnaði svo metin með lúmsku skoti þegar tuttugu mínútur lifðu leiks. Fábio Carvalho hélt hann hefði komið gestunum yfir á nýjan leik ekki löngu síðar þegar hann kláraði færi sitt af mikilli yfirvegun en flaggið fór á loft. Rangstaða niðurstaðan og staðan enn 2-2, það átti heimamenn eftir að nýta sér.

Phil Foden var allt í öllu í kvöld.EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Á 87. mínútu lagði Man City af stað í sókn. Varamaðurinn Jérémy Doku fékk boltann úti vinstra megin, honum tókst að finna Foden inn á teig og þaðan fór boltinn til varamannsins Julian Álvarez sem lagði boltann fyrir sig áður en hann smellti honum í netið. 

Fleiri mörk voru ekki skoruð og leiknum lauk með 3-2 endurkomusigri sem tryggði toppsæti G-riðils. Þegar ein umferð er eftir af riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu eru Evrópumeistararnir með fullt hús stiga eða 15 stig. RB Leipzig er einnig komið áfram í 16-liða úrslitin þó liðið sé aðeins með 9 stig. 

Ungu strákarnir frá Sviss unnu 2-0 sigur á Rauðu stjörnunni í kvöld og eru í góðri stöðu til að tryggja sér sæti í Evrópudeildinni eftir áramót. Young Boys eru eftir sigur kvöldsins með 4 stig en Rauða stjarnan aðeins eitt.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira