Innlent

Setja heil­skimunina í bið­stöðu: „Ætluðum ekki að herja á við­kvæma hópa eða græða“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Steinunn segir að hugsunin á bakvið þjónustuna hafi verið að veita fólki innsýn í eigin líkama.
Steinunn segir að hugsunin á bakvið þjónustuna hafi verið að veita fólki innsýn í eigin líkama. Intuens

Steinunn Erla Thorlacius, framkvæmdastjóri Intuens, segir að segulómunarþjónusta fyrirtækisins hafi verið sett fram í góðri trú. Segulómunin hefur nú verið sett „á hold“ og segir Steinunn að framhaldið sé til skoðunar.

„Við erum að reyna að finna leiðir í þessum stormi um hvað framhaldið verður,“ sagði Steinunn í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hún segir fyrirtækið ekki hætt starfsemi.

„Okkur þykir auðvitað mjög leitt að umræðan sé komin á þennan stað,“ segir Steinunn um þá miklu samfélagsumræðu sem hefur myndast um fyrirtækið á síðustu dögum. 

Mikil gagnrýni hefur beinst að Intuens á undanförnu, en þar má nefna að Tómas Guðbjartsson hjartalæknir fullyrti að heilskimun Intuens væri eitthvað mesta peningaplokk sem kynnt hafi verið til leiks í einkarekinni íslenskri heilbrigðisþjónustu. Þá væri ekki hægt að tala um heilaskimunina sem skimun þar sem ekki væri verið að leita markvisst að vel skilgreindum sjúkdómum.

„Þetta var alls ekki gert með það að leiðarljósi að herja á viðkvæma hópa eða græða,“ segir Steinunn.

Steinunn segir þjónustuna hafa verið setta fram í samstarfi við Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur.

Jafnframt segist hún hafa fengið þau skilaboð frá félaginu að þau sjái ekki eftir sínum þætti.

Steinunn segir að hugsunin á bakvið þjónustuna hafi verið að veita fólki innsýn í eigin líkama.

Hún bendir á að segulómanir sem þessar hafi verið framkvæmd um árabil í mörgum nágrannalöndum Íslands.

„Við höfum algjöran skilning á því að það geti komið gagnrýni á nýjar rannsóknarhefðir. En við óskum alltaf eftir umræðunni á faglegan hátt.“

Aðspurð um hverjir standa að baki Intuens minnist Steinunn bæði fjárfesta og heilbrigðisstarfsfólk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×