Fótbolti

Katla skrifar undir þriggja ára samning við Kristian­stad

Aron Guðmundsson skrifar
Katla í leik með Þrótti Reykjavík
Katla í leik með Þrótti Reykjavík Vísir/Hulda Margrét

Katla Tryggvadóttir hefur skrifað undir þriggja ára samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Kristianstad. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.

Katla gengur til liðs við félagið frá Þrótti Reykjavík þar sem hún hefur spilað við góðan orðstír í Bestu deildinni undanfarin ár. 

Þessi 18 ára gamli leikmaður hefur sýnt mikla færni þrátt fyrir ungan aldur og tekur nú skrefið út í atvinnumennskuna hjá liði Kristianstads sem heldur inn í sitt fyrsta tímabil í langan tíma ekki undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur. 

„Ég er mjög ánægð með að ganga í raðir Kristianstad. Þetta er góður áfangastaður fyrir mig, metnaðarfullt félag sem býr yfir frábærum þjálfurum og leikmönnum. Ég vildi taka næsta skref á mínum ferli núna til þess að halda áfram að þróa minn leik, bæta mig sem leikmaður. 

Katla heldur út til Svíþjóðar í byrjun janúar á næsta ári en fulltrúar Kristianstad hafa fylgst lengi með henni.

„Katla er metnaðarfullur leikmaður sem við höfum fylgst lengi með. Síðasta vor kom hún hingað og kannaði aðstæður hjá okkur. Það er ánægjulegt að hafa náð samningum við hana,“ segir Lovisa Ström, yfirmaður knattspyrnumála hjá Kristianstad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×