Íslenski boltinn

Kjartan Kári spilar ekki fyrir Óskar Hrafn í Noregi: Seldur til FH

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjartan Kári Halldórsson í leik með FH á móti Breiðabliki í sumar.
Kjartan Kári Halldórsson í leik með FH á móti Breiðabliki í sumar. Vísir/Anton Brink

FH-ingar hafa gengið frá kaupum á íslenska knattspyrnumanninum Kjartani Kára Halldórssyni en norska félagið FK Haugesund staðfesti söluna í morgun.

Óskar Hrafn Þorvaldsson er að taka við þjálfun Haugesund liðsins eftir að hafa hætt með Breiðablik í haust.

Kjartan Kári var á láni hjá FH í Bestu deildinni í sumar en FH gekk síðan frá kaupum á þessum nítján ára leikmanni. Kjartan skoraði eitt mark með FH í Bestu deildinni 2023.

„Kjartan stóð sig svo vel með FH í sumar að félagið vildi kaupa hann af okkur. Við höfum ákveðið að samþykkja tilboð þeirra og óskum Kjartani alls hins besta í framtíðinni,“ sagði Eirik Opedal, íþróttastjóri FK Haugesund, í frétt á heimasíðu félagsins.

Kjartan kom til norska félagsins fyrir ári síðan en hann hafði þá orðið markahæsti leikmaður Lengjudeildarinnar með Gróttu eftir að hafa skorað sautján mörk í nítján leikjum.

Kjartan skrifaði undir fjögurra ára samning við norska félagið en náði ekki að festa sig í sessi þar og fór frekar á láni til Íslands. Nú er ljóst að hann spilar ekki fyrir Óskar Hrafn hjá Haugesund heldur áfram fyrir Heimi Guðjónsson hjá FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×