Þingmennirnir bjuggu til stólahrúgu í salnum og kveiktu eldinn á sama tíma og öryggisverðir börðust við að halda mótmælendum frá forsætisráðherranum Edi Rama. Eldurinn var slökktur af öðrum þingmönnum.
Sali Berisha, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sem er bæði fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi forseti landsins, hefur sakað stjórnvöld um að reyna að þagga niður í stjórnarandstöðunni.
Þrátt fyrir uppþotin voru fjárlögin samþykkt en Berisha sagði eftir á að ekki yrði aftur snúið og að stjórnarandstaðan myndi tryggja að fleiri kæmu að ákvörðunum en Sósíalistaflokkur Rama.
Berisha og tengdasonur hans hafa verið ákærðir í spillingarmáli vegna jarðarkaupa en pólitíkusinn er sakaður um að hafa notað áhrif sín þegar hann var forsætisráðherra frá 2005 til 2009 til að tryggja nákomnum hagfellda niðurstöðu í ýmsum málum.
Tengdasonurinn var handtekinn en sem þingmaður nýtur Berisha friðhelgi.
Berisha hefur sakað Rama um að vera að baki ákærunum.