Erlent

Á annað hundrað hand­tekin vegna barnaklámshrings

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Lögregla haldlagði gríðarlegt magn barnaníðsefnis.
Lögregla haldlagði gríðarlegt magn barnaníðsefnis. EPA/KOTE RODRIGO

Lögreglan á Spáni hefur handtekið 121 einstakling sem eru grunaðir um aðild að risastórum barnaklámshring. Þetta er ein stærsta aðgerð gegn barnaklámi í sögu Spánar.

Hin handteknu, 118 karlar og þrjár konur notuðu öll sama tengslanetið þar sem gríðarlegt magn barnakláms var í umferð. Við húsleit á heimilum og vinnustöðum fólksins hefur lögreglan alls gert upptæk 500 terabæt af efni, sem hún segir að sé sérlega gróft. Á meðal þess sem var haldlagt og innihélt gróft barnaklám voru 368 harðir diskar, 427 dvd-diskar, 114 usb-lyklar og 60 tölvur auk annarra tækja.

Sum fórnarlömb kornung

Fólkið sem var handtekið býr víðs vegar á Spáni; í Madrid, Alicante, Almería og víðar. Lögreglan er að rannsaka myndefnið til að reyna að hafa uppi á fórnarlömbunum sem sum hver eru kornung, en hún segir ljóst að stór hluti myndefnisins sé tekinn upp á Spáni, inni á heimilum hinna handteknu. Þá segir lögreglan að í mörgum myndböndum sem hafi verið haldlögð séu börnin beitt afar grimmilegu ofbeldi.

Fjölmiðlar greina frá því að nú þegar hafi einn hinna handteknu gert samning við ákæruvaldið, hann viðurkenni að hafa haft barnaklám í fórum sínum og dreift því til annarra og mun þurfa að afplána fimm ára fangelsisdóm.

Meirihlutanum sleppt eftir yfirheyrslu

Þrír hinna handteknu sitja áfram í gæsluvarðhaldi en 118 var sleppt að loknum yfirheyrslum.

Lögreglan segir að handtökurnar megi rekja til umfangsmikillar rannsóknar lögreglunnar á barnaklámi á netinu og að 46 deildir lögreglunnar víðs vegar um landið hafi tekið þátt í rannsókninni og handtökunum. Tölvuglæpadeild spænsku lögreglunnar tók þátt í alþjóðlegri aðgerð gegn barnaklámi fyrir fjórum árum, þá voru meira en 300 handteknir í 38 löndum og 23 börnum var bjargað úr ánauð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×