Fótbolti

Svona var blaða­manna­fundur Ís­lands fyrir leikinn gegn Portúgal

Aron Guðmundsson skrifar
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Lissabon í dag.
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Lissabon í dag. Stöð 2 Sport

Ís­lenska karla­lands­liðið í fót­bolta er mætt til Lisabon í Portúgal þar sem að liðið á leik gegn heima­mönnum á José Al­vala­de leik­vanginum á morgun í loka­um­ferð undan­keppni EM.

Lands­liðs­þjálfari Ís­lands, Åge Hareide, og fyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson sátu fyrir svörum á blaða­manna­fundi á leik­vanginum í dag að lokinni æfingu liðsins. Fundinn í heild sinni má sjá hér að neðan.

Ís­land á ekki lengur mögu­leika á því að tryggja sér sæti á EM 2024 í Þýska­landi í gegnum undan­keppnina eftir tap gegn Slóvakíu á dögunum. Hins vegar er enn mögu­leiki á því að liðið vinni sér inn sæti á mótinu í gegnum um­spil Þjóða­deildar UEFA.

Verk­efni morgun­dagsins gerist vart stærra. Portúgal hefur nú þegar tryggt sér sæti á EM og hefur ekki tapað stigi í undan­keppninni, unnið alla sína leiki, og geta með sigri gegn Ís­landi á morgun inn­siglað full­komið mót sitt.

Klippa: Svona var blaða­manna­fundur Ís­lands fyrir leikinn gegn Portúgal

Åge segir að nokkrir leikmenn séu að glíma við smávægileg meiðsli og tekin verði ákvörðun á morgun hvort þeir verði í hópnum eður ei. Hann sagði einnig að liðið þyrfti að verjast almennilega, nýta skyndisóknir og hafa trú á verkefninu. Nú snýst þetta um að byggja upp sjálfstraust fyrir leikina í umspilinu í mars á næsta ári.

Jóhann Berg sagðist vona að leikmenn væru búnir að jafna sig á tapinu gegn Slóvakíu en menn hefðu auðvitað verið mjög svekktir að leik loknum. Það þurfi að læra af þeim mistökum og gera betur á morgun.

Fundinn má sjá í heild sinni í spilaranum ofan í fréttinni. Leikur Portúgals og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá Stöðvar 2 Sport. Leikurinn hefst klukkan 19.45 annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×