Enski boltinn

Haaland dregur sig úr lands­liðs­hópnum vegna meiðsla

Smári Jökull Jónsson skrifar
Haaland gæti misst af leiknum gegn Liverpool.
Haaland gæti misst af leiknum gegn Liverpool. Vísir/Getty

Erling Haaland hefur dregið sig úr norska landsliðshópnum vegna meiðslanna sem hann varð fyrir gegn Færeyjum á fimmtudag.

Erling Haaland þurfti að fara meiddur af velli í leik Noregs og Færeyja á fimmtudag. Strax spratt upp umræða um þátttöku hans í stórleik Manchester City og Liverpool um næstu helgi og áhyggjur City manna minnka eflaust ekki nú þegar tilkynnt hefur verið að Haaland hefur dregið sig úr norska hópnum fyrir leik Norðmanna gegn Skotlandi á morgun.

Liðslæknir norska liðsins staðfesti eftir leikinn Færeyjum að Haaland hefði meiðst á ökkla en það er ekki í fyrsta sinn í vetur sem ökkli framherjans knáa er til vandræða.

Haaland verður nú í kapphlaupi við klukkuna við að ná leiknum gegn Liverpool eftir slétta viku. Meiðslin eru að sögn læknateymis norska liðsins ekki alvarleg en Haaland verður án efa skoðaður ítarlega af læknum Manchester City við heimkomuna.

City er í talsverðum meiðslavandræðum og gætu verið án fleiri leikmanna gegn Liverpool. Mateo Kovacic meiddist í leik með króatíska landsliðinu og þá er Kevin De Bruyne ekki enn kominn til baka vegna meiðslanna sem hann varð fyrir snemma á tímabilinu.

John Stones fór meiddur af velli í leik með City á dögunum og þá eru Matheus Nunes, Rodri og Nathan Aké einnig tæpir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×