Enski boltinn

Allt á upp­leið hjá Núnez eftir að Suárez talaði við hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luis Suárez and Darwin Núnez láta í sér heyra á HM í Katar í fyrra.
Luis Suárez and Darwin Núnez láta í sér heyra á HM í Katar í fyrra. getty/Stu Forster

Forráðamenn Liverpool báðu úrúgvæska framherjann Luis Suárez um að tala við landa sinn, Darwin, Núnez, þegar hann átti erfitt uppdráttar á fyrsta tímabili sínu í Bítlaborginni.

Liverpool keypti Núnez frá Benfica fyrir 85 milljónir punda í fyrra. Hann átti ekki fast sæti í liði Liverpool á síðasta tímabili en skoraði samt fimmtán mörk í öllum keppnum. Betur hefur gengið hjá Úrúgvæanum í vetur, hann hefur skorað sjö mörk og samvinna hans og Mohameds Salah hefur verið góð.

Suárez, sem lék með Liverpool á árunum 2011-14, hefur greint frá því að Liverpool-menn hafi leitað til hans og beðið hann um að ræða við Núnez.

„Hann hefur hæfileikana, tæknina og kraftinn sem hann er að sýna núna,“ sagði Suárez við ESPN í Argentínu.

„Sem samherji kemur þetta mér ekki á óvart. Ég vissi hvað í honum bjó. Þegar hann átti erfitt uppdráttar hjá Liverpool í fyrra talaði ég við hann. Liverpool-menn báðu mig um að tala um hann. Ég varaði hann við og sagði honum um hvað enski boltinn snerist. Hann opnaði sig, sagði mér hvað hefði gerst og við töluðum um það. Sem samherji gleðst ég fyrir hans hönd.“

Suárez sagði jafnframt að hann vildi að Núnez tæki við treyju númer níu hjá sér í úrúgvæska landsliðinu. Suárez er markahæsti leikmaður í sögu þess með 68 mörk. Núnez hefur skorað fimm mörk í tuttugu landsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×