Um­fjöllun, við­töl og myndir: Breiða­blik - Gent 2-3 | Breiða­blik var leyft að dreyma en sigurinn kom ekki í kvöld

Sverrir Mar Smárason skrifar
Blikar fagna Jason Daða
Blikar fagna Jason Daða Vísir / Hulda Margrét

Breiðablik þurfti að lúta í gras fyrir Gent í fjórða leik sínum í Sambandsdeild Evrópu fyrr í kvöld 2-3. Breiðablik var einu marki yfir í hálfleik og það var verðskuldað eftir að Jason Daði Svanþórsson skoraði tvö keimlík mörk af stuttu færi. Gent kláraði verkefnið síðan í seinni hálfleik en Gift Orban skoraði öll mörk gestanna.

Það byrjaði ekki byrlega fyrir Blika en strax á sjöttu mínútu komst Gent yfir en Gift Orban var þar á ferðinni. Hann átti eftir að vera meira á ferðinni. Gent náði fyrirgjöf og Orban var réttur maður á réttum stað til að skalla boltann í netið framhjá Antoni í markinu. Blikar bitu í skjaldarrendurnar og hófust handa við að koma sér aftur inn í leikinn.

Svekkelsi eftir mark GentVísir / Hulda Margrét

Tíu mínútum síðar  komst Davíð Ingvarsson inn í sendingu aftur og barst boltinn á Gísli Eyjólfsson átti skot sem fór í varnarmann og þaðan barst boltinn til Jasons Daða sem var einn fyrir opnu marki og renndi hann knettinum í netið. Fín pressa hjá Blikum sem skilaði marki og Blikarnir komnir vel inn í leikinn.

Aðeins tveimur mínútum síðar á 18. mínútu komust Blikar yfir og fór aðdáendum Blika þá fyrst að dreyma. Aftur var Jason Daði á ferðinni og aftur eftir skot frá Gísla sem markvörðurinn varði þó núna en Jason var kominn í sníkjuna og skoraði. Blikar komust aftur inn í sendingu á vallarhelmingi gestanna og nýttu það til fulls.

Það sem eftir lifði hálfleiks voru gestirnir meira með boltann en náðu ekki að nýta sér þær stöðu sem sköpuðust og áttu í bölvuðu brasi með að brjóta Blikana á bak aftur. Blikarnir aftur á móti vörðust vel, stönguðu bolta í burtu, hentu sér fyrir skot og sendingar og náðu að sprengja upp völlinn og skapa sér hættulegri stöður ef eitthvað er til að bæta við marki. Allt kom fyrir ekki og Blikar voru einu marki yfir í hálfleik.

Blikar stappa stálinu í hvorn annanVísir / Hulda Margrét

Aftur var leikurinn ekki gamall þegar ógæfan dundi yfir heimamenn að nýju. Hornspyrna var tekin á 54. mínútu og eftir slagsmál í teignum var dæmd vítaspyrna á Andra Rafn Yeoman og var hún umdeild svo ekki sé meira sagt. VAR tékkaði og veitti spyrnuna.

Gift Orban var mjög rólegur á vítapunktinum og jafnaði metin á meðan Anton sveif í hitt hornið.

Korteri síðar tryggði Orban sigurinn fyrir Gent. Þar með fullkomnaði hann þrennuna sína en góð sending var send inn fyrir vörn Blika og mátti minnstu muna að Viktor Örn kæmist inn í sendinguna. Svo varð ekki og Tarik Tissoudali sýndi fádæma óeigingirni í góðri stöðu og renndi boltanum á Orban sem renndi boltanum í autt markið.

Gísli Eyjólfsson var góður gegn GentVísir / Hulda Margrét

Blikum óx ásmegin og reyndu hvað þeir gátu til að jafna og áttu nokkur hörkufæri. Allt kom fyrir ekki og Gent náði að halda út og fara með stigin þrjú aftur til Belgíu og eru í mjög góðri stöðu á toppi riðilsins. Þeir eiga lítið eftir til að tryggja sig áfram en Blika bíða eftir sigri eða stigi og finnst manni að það styttist í það.

Afhverju tapaði Breiðablik?

Jason Daði Svanþórsson sagði það best. Á þessu stigi í þessari keppni þá er liðum refsað fyrir öll mistök og það var raunin í kvöld. Það mátti samt minnstu muna að Blikar fengju eitthvað út úr þessari fínu frammistöðu.

Bestir á vellinum?

Það er erfitt að horfa framhjá Jason Daða sem skoraði bæði mörk Blika en Gísli Eyjólfsson átti líka frábæran leik. Hann stýrði því hverni Blikar sóttu og skapaði usla. Varnarlína Blika færi líka hrós en í fyrri hálfleik og lengi vel í seinni þá stóðu þeir sína vakt með stakri prýði.

Hvað næst?

Nú tekur við bið eftir Maccabi Tel Aviv en leikurinn við þá verður leikinn 30. nóvember nk. hér á Laugardalsvelli.

Halldór: Þessi vítaspyrnudómur ekki í takti við neitt

Halldór ÁrnasonVísir / Hulda Margrét

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, var að vonum svekktur að hafa ekki náð í stig eða þau öll gegn Gent fyrr í kvöld.

„Bara gífurlega svekkjandi. Á sama tíma er ég samt stoltur af liðinu sem spilaði frábæran leik í kvöld og átti mikið meira en ekkert skilið í kvöld.“

Hvað gerðist samt í leik Blika sem varð til þess að ekkert kom út úr þessum leik.

„Mér fannst við byrja leikinn vel en fyrsta markið var eiginlega allt sem við ætluðum að koma í veg fyrir fyrir leik. Þó að þeir hafi vælt mikið yfir vellinum þá snýst þeirra leikur ekki um að hafa boltann á grasinu heldur að setja boltann yfir línuna og í fyrsta markinu erum við klaufar. Komum sterkir til baka og komumst yfir og virkilega sterkt að vera yfir í hálfleik.“

„Við enduðum mjög djúpt í fyrri hálfleik sem var ekki planið. Við stigum hærra upp í upphafi seinni hálfleiks og það var einungis dómarinn sem sá til þess að þeir komust inn í leikinn aftur. Þetta var fáránlegur vítadómur. Mér fannst hann leggjast á Andra þangað til að hann missir fótana og grýtir sér í jörðina. Dómarinn dæmdi þetta bara á einni sekúndu og miðað við það sem var leyft í leiknum og hvernig mínir framherjar voru höndlaðir í leiknum þá var þetta glóruaus dómur.“

Halldór var þá inntur eftir viðbrögðum við sambærilegu atviki í hinum vítateignum þar sem ekki var dæmd vítaspyrna fyrir Blikana.

„Ég er ekki búinn að sjá það en þessi vítaspyrnudómur var ekki í neinum takti við neitt í þessum leik.“

Að lokum var Halldór spurður hvort hann hafi ekki verið sáttur við hvernig Blikar reyndu að ná í eitthvað í lok leiksins.

„Já að sjálfsögðu. Þeir skiptu um kerfi nokkrum sinnum og enduðu með fimm hafsenta að reyna að þrauka hérna í kvöld. Náðu því en ég er bara á því að við hefðum allavega átt að jafna þennan leik. Ég lít á það sem hrós á leik okkar hversu oft þeir skiptu um kerfi. Við vorum bara klaufar að fá á okkur mark þarna í seinni hálfleik en við gerðum þeim lífið virkilega leitt.“

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira