Erlent

Rússar gefa út hand­töku­skipun á hendur ís­lenskum ríkis­borgara

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lucy Shtein (lengst til vinstri) á blaðamannafundi í Portúgal. Við hlið hennar eru Alekhina og tvær aðrar liðskonur Pussy Riot.
Lucy Shtein (lengst til vinstri) á blaðamannafundi í Portúgal. Við hlið hennar eru Alekhina og tvær aðrar liðskonur Pussy Riot. epa

Yfirvöld í Rússlandi hafa gefið út handtökuskipun á hendur Liudmilu „Lucy“ Shtein, 27 ára meðlimi hljómsveitarinnar og aðgerðahópsins Pussy Riot. 

Samkvæmt ríkismiðlinum Tass er Shtein eftirlýst fyrir að hafa vísvitandi dreift fölskum upplýsingum um rússneska herinn. Lög sem banna borgurum að ræða herinn voru samþykkt í kjölfar innarásar Rússa í Úkraínu.

Shtein og kærasta hennar Mariia Alekhina, kölluð Masha, flúðu Rússland í fyrra en Alekhina er einn af stofnmeðlimum Pussy Riot og var meðal þeirra sem voru handteknir þegar þeir trufluðu messu í Kristskirkjunni í Moskvu árið 2012.

Alþingi veitti bæði Alekhinu og Shtein íslenskan ríkisborgararétt í fyrra.

Samkvæmt áströlsku fréttastofunni ABC hefur ekki verið greint frá því hvaða ummæli Shtein er eftirlýst fyrir en ljóst þykir að hún geti ekki snúið aftur til Rússlands á meðan handtökuskipunin er í gildi. Bæði hún og Alekhina hafa áður sætt varðhaldi í Rússlandi.

Shtein þarf þó ekki að hafa áhyggjur af því að verða framseld frá Íslandi, þar sem Ísland framselur ekki eigin ríkisborgara. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×