Innlent

„Ég ætlaði varla að trúa þessu“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lax úr kvíum Arctic Fish í Tálknafirði. Myndirnar voru teknar föstudaginn 27. október síðastliðinn.
Lax úr kvíum Arctic Fish í Tálknafirði. Myndirnar voru teknar föstudaginn 27. október síðastliðinn. Veiga Grétarsdóttir

Um milljón eldislaxa hafa drepist eða verið fargað í kvíum Arctic Fish og Arnarlax í Tálknafirði. Náttúruverndarsinni sem skoðaði kvíarnar segir alla laxa ofan í kví félagsins í Tálknafirði hafa verið lúsétna. Hún hafi varla trúað eigin augum. 

Heimildin fjallaði í gær um sjókvíar Arctic Fish í Tálknafirði og greindu frá því að verið væri að farga öllum fiskum í ákveðnum kvíum félagsins vegna lúsafaraldurs þar. Hefur Heimildin það eftir deildarstjóra fiskeldis hjá Matvælastofnun að um milljón eldislaxar hafi drepist eða fargað vegna lúsarinnar í sjókvíum Arctic Fish og Arnarlax í Tálknafirði.

Segir deildarstjórinn að norskur dýralæknir væri staddur hér á landi vegna málsins og að hann hafi aldrei séð neitt jafn slæmt og þetta á þrjátíu ára ferli sínum.

Kajakræðarinn og náttúruverndarsinninn Veiga Grétarsdóttir tók myndir og myndbönd af sjókvíunum fyrir sex dögum síðan. Hún segist ekki hafa séð einn einasta heilbrigða lax þar ofan í.

Veiga Grétarsdóttir, náttúruverndarsinni.

„Ég flaug drónanum út og ákvað að sjá hvort ég sæi eitthvað. Svo þegar ég fór að zoom-a ofan í kvíarnar fór ég að sjá hvíta kolla út um allt sem ég hef aldrei séð áður. Ég zoom-aði neðar og nær ofan í kvíarnar, þá kom þetta bara í ljós. Lúsétnir laxar, dauðir laxar, bara orðnir skinnlausir og nánast holdlausir á hausnum. Ég ætlaði varla að trúa þessu,“ segir Veiga í samtali við fréttastofu .

Veiga segist hafa verið hálf orðlaus vegna þess sem hún sá þarna ofan í.

„Þetta var skelfilegt. Þetta var sjokkerandi, mér brá. Ég ætlaði ekki að trúa þessu sem ég sá. Ég varð hálf orðlaus. Það var erfitt að hætta að mynda,“ segir Veiga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×