Erlent

Hand­töku­til­skipun á hendur þýsks stjórn­mála­manns

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Halemba er meðlimur í flokki AfD.
Halemba er meðlimur í flokki AfD. Getty/Stratenschulte

Handtökutilskipun hefur verið gefin út á hendur hins 22 ára gamla Daniel Halemba, stjórnmálamanns á ríkisþingi í Bæjaralandi í Þýskalandi. Lögregla gefur ekki upp ástæður tilskipunarinnar en stjórnmálamaðurinn er meðlimur í háskólaklúbbi sem er til rannsóknar í tengslum við gripi með merkjum nasista.

Halemba er í þýska hægri þjóðernissinnaflokknum, AfD, og verður yngsti maður á ríkisþinginu þegar það tekur saman í eftir helgi. Samkvæmt þýskum lögum njóta þingmenn friðhelgi en Halemba nýtur ekki verndar laganna fyrr en á mánudag.

Skrifstofa ríkissaksóknarans í Würzburg í Bæjaralandi segir ekki unnt að gefa upp ástæður handtökutilskipunarinnar: „Af tilteknum ástæðum viljum við ekki gefa neitt upp, hvorki um ákæruna eða efni handtökutilskipunarinnar,“ sagði talsmaður ríkissaksóknarans samkvæmt Deutsche Welle.

AfD, flokkur Halemba, birti yfirlýsingu í gær um að handtökutilskipun hafi verið gefin út á hendur eins flokksmeðlima. Nafn Halemba kom þó ekki fram í yfirlýsingunni.

Eins og fyrr segir hefur ákæruvaldið undanfarið rannsakað háskólaklúbb (e. fraternity) sem Halemba er í. Ráðist var í leit í húsakynnum klúbbsins nýlega og þar fundust merki ólöglegra samtaka, meðal annars merki nasista.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×