Innlent

Fimm­tán börn og fjöl­skyldur fengu ferða­styrk Vildar­barna

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Styrkþegar ásamt aðstandendum við úthlutunina í morgun.
Styrkþegar ásamt aðstandendum við úthlutunina í morgun. Icelandair

Fimmtán börnum og fjölskyldum þeirra var afhentur ferðastyrkur úr sjóði Vildarbarna Icelandair í dag. Markmið sjóðsins er að gefa langveikum börnum eða börnum sem búa við erfið skilyrði tækifæri til þess að fara í draumaferð til útlanda.

Sjóður Vildarbarna er nú á sínu tuttugasta starfsári og úthlutunin í dag er sú 36. í röðinni. Alls hafa um 740 fjölskyldur notið stuðnings úr sjóðnum og yfir 3.500 manns ferðast á vegum hans.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að í styrknum felist skemmtiferð fyrir barnið og fjölskyldu þess, og er allur kostnaður greiddur, flug, gisting, dagpeningar og aðgangseyrir að sérstökum viðburði sem barnið óskar sér. Líkt og við úthlutun styrkjanna undanfarin ár afhentu Sambíóin börnunum bíómiða.

Byggir á hugmyndum og starfi Peggy Helgason

Starfsemi Vildarbarna Icelandair byggir á hugmyndum og starfi Peggy Helgason, eiginkonu Sigurðar Helgasonar, sem lengi var forstjóri Flugleiða og stjórnarformaður Icelandair Group, en Peggy hefur um árabil unnið sem sjálfboðaliði á barnadeildum sjúkrahúsa í Reykjavík og stutt fjölskyldur fjölda veikra barna með ýmsum hætti. Vigdís Finnbogadóttir er verndari sjóðsins.

„Það er mjög ánægjulegt að taka þátt í góðum verkefnum sem þessum. Vildarbarnasjóðurinn byggir á hugmyndum og starfi Peggy Helgason iðjuþjálfa sem hefur um árabil unnið sem sjálfboðaliði á barndeildum sjúkrahúsa í Reykjavík og stutt fjölskyldur veikra barna með ýmsum hætti,“ er haft eftir Tómasi Ingasyni, framkvæmdastjóra tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair í tilkynningunni. 

„Starfsemin hefur nú veitt hundruðum fjölskyldna tækifæri til að ferðast og skapa saman ógleymanlegar minningar. Við erum mjög stolt af sjóðnum og þakklát viðskiptavinum okkar fyrir þeirra framlag til þessa góða málefnis.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×