Erlent

Tveir fluttir á sjúkra­hús eftir slys í Fukus­hima-kjarn­orku­verinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vatnið er geymt í fjölmörgum tönkum, milljón tonn alls.
Vatnið er geymt í fjölmörgum tönkum, milljón tonn alls. epa/Jiji Press

Fjórir starfsmenn kjarnorkuverksins í Fukushima fengu á sig geislamengað vatn á miðvikudag og voru tveir þeirra fluttir á sjúkrahús í varúðarskyni.

Fimm starfsmenn voru að þrífa rör þar sem vatn frá verinu er hreinsað áður en því er hleypt út í sjó þegar slysið átti sér stað. Svo virðist sem slanga hafi losnað og vatn skvest á tvo starfsmannanna en tveir til viðbótar komust í snertingu við vatnið þegar unnið var að því að hreinsa það upp.

Starfsmennirnir tveir sem fluttir voru á sjúkrahús sýndu geislun sem var um eða yfir fjögur Bq á fersentímetra, sem er öryggisviðmiðið. Talsmaður Tepco sagði í samtali við fjölmiðla að ástand beggja væri stöðugt.

Samkvæmt talsmanninum verða starfsmennirnir á sjúkrahúsinu í um tvær vikur en rannsókn mun fara fram á slysinu og ráðstafanir gerðar til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

Aðeins nokkrir dagar eru frá því að Tepco hleypti öðrum skammti af geislamenguðu vatni út í sjó en ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd af veiðimönnum og ríkjum á borð við Kína og Rússland. Bæði ríki hafa bannað innflutning sjávarfangs frá Japan í kjölfarið.

Umrætt vatn, um milljón tonn, hefur verið hreinsað en inniheldur enn tritíum, geislavirka samsætu sem erfitt er að skilja frá vatni. Vatnið var notað við að kæla kljúfa versins þegar bráðnun átti sér stað í kjölfar jarðskjálftans árið 2011, þegar flóðbylgja skall á verinu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×