Fótbolti

Aston Villa fór illa með AZ Alkmaar og KÍ Klaksvík vann stórsigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ollie Watkins heldur áfram að skora fyrir Aston Villa.
Ollie Watkins heldur áfram að skora fyrir Aston Villa. Dean Mouhtaropoulos/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Aston Villa vann öruggan 1-4 sigur er liðið heimsótti AZ Alkmaar í Sambandsdeild Evrópu í kvöld. Á sama tíma vann færeyska liðið KÍ Klaksvík 3-0 sigur gegn Olimpija Ljubljana.

Leon Bailey og Youri Tielemans sáu um markaskorun Aston Villa í fyrri hálfleik áður en Ollie Watkins og John McGinn bættu sínu markinu hvor við með stuttu millibili í síðari hálfleik. 

Ibrahim Sadiq lagaði stöðuna lítillega fyrir heimamenn á 65. mínútu, en úrslitin voru þegar ráðin og Aston Villa fagnaði öruggum 1-4 sigri. Enska félagið er nú á toppi E-riðils með sex stig eftir þrjá leiki, en AZ Alkmaar situr í þriðja sæti með þrjú stig. Zrinjski Mostar og Legia Warszawa eru einnig með þrjú stig og mætast síðar í kvöld.

Á sama tíma vann KÍ Klaksvík öruggan 3-0 sigur gegn Olimpija Ljubljana í A-riðli. Rene Joensen og Pall Andrasson Klettskard skorðu mörk Færeyingana í fyrri hálfleik áður en Jakup Biskopsto Andreasen rak síðasta naglann í kistu gestanna snemma í síðari hálfleik.

KÍ Klaksvík er nú með fjögur stig í þriðja sæti A-riðils eftir þrjá leiki, þremur stigum á eftir toppliði Lille. Olimpija Ljubljana situr hins vegar á botninum án stiga.

Úrslit

A-riðill

KÍ Klaksvík 3-0 Olimpija Ljubljana

Lille 2-1 Slovan Bratislava

B-riðill

Gent 5-0 Breiðablik

C-riðill

Ballkani 1-2 FC Astana

D-riðill

Lugano 1-3 Club Brugge

E-riðill

AZ Alkmaar 1-4 Aston Villa

H-riðill

Fenerbache 3-1 Ludogorets Razgrad




Fleiri fréttir

Sjá meira


×