Erlent

Allt að 22 sagðir látnir eftir skot­á­rás í Maine

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Myndir hafa verið birtar af hinum grunaða sem virðist enn ganga laus.
Myndir hafa verið birtar af hinum grunaða sem virðist enn ganga laus. Androscoggin County Sheriff's Office

Að minnsta kosti sextán eru látnir og fleiri særðir eftir skotárásir í keilusal og bar í Lewiston í Maine í Bandaríkjunum. Svo virðist sem um tvær árásir sé að ræða af höndum sama einstaklingsins.

Aðgerðir standa enn yfir en Associated Press hefur eftir heimildarmönnum að sextán séu látnir hið minnsta og tugir særðir. Aðrir miðlar segja tíu til 22 látna.

Yfirvöld skipuðu íbúum og eigendum fyrirtækja að halda sig inni við. 

Lögregla birti upphaflega færslu á Facebook þar sem sagði að skotárásir hefðu átt sér stað á Schmengees Bar og Sparetime Recreation. Hinn 40 ára Roberg Card væri grunaður um árásirnar og væri álitinn vopnaður og hættulegur.

Samkvæmt upplýsingum AP er Card skotvopnakennari.

Á vefsíðu sinni sögðu heilbrigðisyfirvöld að verið væri að fást við stóran viðburð þar sem margir hefðu verið skotnir. Unnið væri að því að dreifa særðu á sjúkrahús í nágrenninu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur rætt við ríkisstjóra Maine og boðið fram alla nauðsynlega aðstoð.

Gríðarlega umfangsmikil leit að árásarmanninum stendur nú yfir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×