Fótbolti

Ragnar Sigurðs­son gæti snúið aftur til Rúss­lands

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ragnar Sigurðsson, þjálfari Fram, gæti verið á leið til Rússlands á nýjan leik.
Ragnar Sigurðsson, þjálfari Fram, gæti verið á leið til Rússlands á nýjan leik. Vísir/Anton Brink

Það virðist næsta öruggt að Ragnar Sigurðsson verði ekki áfram þjálfari Fram í Bestu deild karla í knattspyrnu. Samningur hans er runninn út og Fram hefur gefið út að Rúnar Kristinsson sé efstur á blaði. Nú virðist sem Ragnar gæti verið á leið til Rússlands.

Hinn 37 ára gamli Ragnar tók við af Jóni Sveinssyni sem þjálfari Fram um mitt sumar. Honum tókst að halda Fram uppi en samningur hans var aðeins út nýafstaðið tímabil og virðist sem Fram ætli sér að róa á önnur mið er varðar þjálfara.

Um var að ræða fyrsta þjálfarastarf Ragnars eftir farsælan atvinnumannaferil sem spannaði rúm 14 ár. Spilaði hann í Svíþjóð, Danmörku, Rússlandi, Englandi og Úkraínu en nú virðist sem hann gæti verið á leið til Rússlands á nýjan leik.

Þessu greindi Albert Brynjar Ingason, þáttastjórnandi hlaðvarpsins Gula spjaldið en sá er fyrrverandi liðsfélagi Ragnars og góðvinur. Albert Brynjar sagði að það gæti farið svo að Ragnar gerist aðstoðarþjálfari Valery Karpin hjá Rostov í Rússlandi en þar spilaði Ragnar frá 2018 til 2020.

„Hann er í smá viðræðum við Rostov um að verða aðstoðarmaður þar. Hann spilaði þarna, er elskaður og forsetinn dýrkaði Ragga. Það er enginn samningur á borðinu en viðræður eru búnar að eiga sér stað,“ sagði Albert Brynjar um stöðu mála.

Rostov er sem stendur í 10. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar með 13 stig að loknum 12 umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×