Fótbolti

Segir að Ajax verði að líta á sig sem fallkandítat

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allt gengur Ajax í mót þessa dagana.
Allt gengur Ajax í mót þessa dagana. getty/Rico Brouwer

Fyrrverandi leikmaður Ajax segir að félagið verði að hugsa eins og það sé í fallbaráttu.

Ajax tapaði 4-3 fyrir Utrecht í hollensku úrvalsdeildinni í gær. Þetta var fjórða tap Ajax í röð en það hefur aldrei gerst áður í sögu félagsins. Kristian Nökkvi Hlynsson skoraði tvö mörk fyrir Ajax í gær, hans fyrstu fyrir aðallið félagsins.

Þetta mikla stórveldi hefur aðeins fengið fimm stig í fyrstu sjö umferðunum og er í næstneðsta sæti hollensku úrvalsdeildarinnar.

Rafael van der Vaart, fyrrverandi leikmaður Ajax, segir að félagið verði að átta sig á því að það sé í fallbaráttu.

„Ég held að Maurice Steijn [knattspyrnustjóri Ajax] sé kominn í hræðilega stöðu,“ sagði Van Der Vaart.

„Ajax verður að spila eins og Excelsior. Þú ert ekki lengur Ajax. Þú verður að gera ráð fyrir að þú sért ekki betri en andstæðingurinn því þeir eru bara ekki svo góðir. Jafnvel góðu leikmennirnir fara niður á þetta plan. Þá er lítið eftir. Þetta hljómar frekar glatað en þú verður að hugsa eins og fallkandítat í augnablikinu.“

Næsti leikur Ajax er gegn Brighton í Evrópudeildinni á fimmtudaginn. Ajax er með tvö stig eftir fyrstu tvo leiki sína í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×