Fótbolti

Kristian skoraði sín fyrstu mörk í tapi Ajax gegn botnliði deildarinnar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kristian Nökkvi [t.h.] í leik með Ajax.
Kristian Nökkvi [t.h.] í leik með Ajax. Ajax

Kristian Hlynsson, íslenskur leikmaður Ajax í hollensku úrvalsdeildinni, skoraði sín fyrstu mörk með aðalliði Ajax. Tvö mörk með stuttu millibili í 4-3 tapi liðsins gegn Utrecht, sem var fyrir þennan leik í neðsta sæti deildarinnar. 

Mörkin voru keimlík og komu bæði strax í upphafi seinni hálfleiks eftir að Ajax hafði lent 2-0 undir í fyrri hálfleiknum. Bakvörður liðsins, Borna Sosa, lagði bæði mörkin upp með góðri fyrirgjöf frá vinstri vængnum. Í fyrra skiptið var Kristian vel staðsettur í vítateignum og beygði boltann með bringunni í átt að marki, í seinna skiptið kom Kristian á ferðinni og skaut viðstöðulaust með hægri fæti í hægra horn, stórbrotin afgreiðsla. 

Eftir að hafa lent tveimur mörkum undir í fyrri hálfleik tók Ajax forystuna á 65. mínútu þegar Steven Bergwijn skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu. Skemmtunin varð þó skammlíf því aðeins fimm mínútum seinna var Jens Toornstra búinn að jafna metin á nýjan leik. 

Leikur var svo stöðvaður lengi vel vegna óróleika meðal áhorfenda. Fjórðungsstund síðar var hann flautaður á skoraði Utrecht um leið. Oscar Fraulo var hetja heimamanna sem lyfta sér upp af botninum í 16. sæti deildarinnar.

Tímabilið hefur farið illa af stað hjá Ajax, þeir sitja nú í 17. sæti deildarinnar, næstneðstir með aðeins einn sigur, en eiga vissulega tvo leiki til góða á liðin fyrir ofan og gætu skotið sér upp í 9. sætið með sigrum þar. 

Kristian Hlynsson gekk til liðs við Ajax árið 2020 frá Breiðablik og hefur spilað með ungmennaliðum félagsins, þetta var annar leikur hans í byrjunarliði og fyrstu mörkin sem hann skorar fyrir aðallið félagsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×