Erlent

Þóttist vera gína og fór svo ránshendi um tóma verslun

Samúel Karl Ólason skrifar
Maðurinn stóð í glugga verslunar við lokun og starfsmennirnir tóku ekki eftir honum.
Maðurinn stóð í glugga verslunar við lokun og starfsmennirnir tóku ekki eftir honum. Lögreglan í Śródmieście

Saksóknarar í Varsjá hafa ákært 22 ára mann fyrir rán en hann er sakaður um að hafa rænt verslun með því að þykjast vera gína. Maðurinn stóð hreyfingarlaus í glugga verslunarinnar með poka, þar til starfsmenn fóru heim án þess að átta sig á því að hann væri þar inni.

Þegar starfsmennirnir fóru rændi maður skartgripum og fötum, samkvæmt lögreglunni í Śródmieście.

Nokkrum dögum síðar er maðurinn sagður hafa komist inn í verslunarmiðstöðina eftir lokun, fengið sér að borða og rænt fötum úr annarri verslun. Hann var fangaður á öryggismyndavélar við að troða sér undir rimla inn í verslunina

Á leiðinni úr versluninni stoppaði hann á öðrum veitingastað og fékk sér aftur að borða.

Hann kom svo aftur nokkrum dögum síðar, eftir lokun verslunarmiðstöðvarinnar, fékk sér að borða og stal nýjum fötum.Lögreglan í Śródmieście

Öryggisverðir sáu þó til hans, gómuðu hann og hringdu á lögregluna. Þá kom í ljós að hann hafði einnig framið rán í annarri verslunarmiðstöð, þar sem hann mun meðal annars hafa tekið peninga úr afgreiðslukössum.

Maðurinn hefur verið úrskurðaður í þriggja mánaða gæsluvarðhald og gæti verið dæmdur í allt að tíu ára fangelsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×