Erlent

Lista­verka­safn Berlu­sconi skapar vand­ræði fyrir af­kom­endurna

Atli Ísleifsson skrifar
Silvio Berlusconi árið 1985. Hann var duglegur að kaupa listaverk og höggmyndir sem boðin voru til sölu í sjónvarpsþáttum sem sýndir voru á kvöldin.
Silvio Berlusconi árið 1985. Hann var duglegur að kaupa listaverk og höggmyndir sem boðin voru til sölu í sjónvarpsþáttum sem sýndir voru á kvöldin. Getty

Einn af helstu menningarvitum og listaverkagagnrýnendum Ítalíu hefur hæðst að listaverkasafni sem forsætisráðherrann fyrrverandi, Silvio Berlusconi, skildi eftir sig þegar hann lést í júní síðastliðinn. Safnið hefur skapað ákveðin vandræði fyrir afkomendur og erfingja Berlusconi.

Gagnrýnandinn Vittorio Sgarbi segir að safn forsætisráðherrans fyrrverandi samanstandi af um 25 þúsund listaverkum sem séu að langstærstum hluta af litlum gæðum og svo gott sem verðlaus.

Í frétt BBC segir að Berlusconi hafi um árabil verið duglegur að kaupa listaverk og höggmyndir sem boðin voru til sölu í sjónvarpsþáttum sem sýndir voru á kvöldin.

Fram kemur að þetta mikla safn hafi veitt afkomendum Berlusconi ákveðnu hugarangri, enda viti þeir ekki hvað eigi að gera við það, nú að Berlusconi gengnum. Myndirnar séu verðveittar í rúmlega þrjú þúsund fermetra vöruhúsi, ekki langt frá sveitasetri Berlusconi fyrir utan Mílanó. Um 120 milljónir króna kosti að reka vöruhúsið á ári.

Í safninu eru meðal annars að finna myndir af Maríu mey, nöktum konum og myndir af húsum í París, Napolí og Feneyjum, að því er segir í frétt La Repubblica. Þá segir að timburmaðkar hafi þegar eyðilagt fjölda verkanna.

Sgarbi gefur lítið fyrir safnið en segir þó að einhverjir, sem hafi litla kunnáttu um list, kunni vafalaust að hafa gaman af því að sjá myndirnar. Mögulega séu sex eða sjö myndir í safninu öllu sem hafi menningarlegt gildi. Þó kemur fram að safnið sé metið á um tuttugu milljónir evra, um þrjá milljarða króna.

Auðævi Berlusconi voru metin á um sex milljarða evra þegar hann lést, um 880 milljarða íslenskra króna.

Fjölmiðlamógúllinn stofnaði stjórnmálaflokkinn Forza Italia árið 1993 og komst fyrst til valda sem forsætisráðherra árið 1994. Hann fór fyrir fjórum ríkisstjórnum til 2011.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×