Innlent

Nær öllu flugi af­lýst vegna ó­veðursins

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Óveðri er spáð í kvöld og fram á morgun.
Óveðri er spáð í kvöld og fram á morgun. Vísir/Vilhelm

Nær öllum flugferðum frá Keflavíkurflugvelli í nótt og fram að hádegi á morgun hefur verið aflýst. Þá hefur einhverjum flugferðum verið frestað. Gul viðvörum tekur gildi á Suðurlandi og Faxaflóa klukkan tíu í kvöld og mun standa yfir í tæpan sólarhring. 

Á vef Isavia má sjá að nær öllum flugferðum hefur verið aflýst í nótt og í fyrramálið og að einhverjum flugferðum í fyrramáið hefur verið seinkað. 

Flugfélagið Play hefur aflýst og seinkað flugferðum vegna óveðurs sem mun ganga yfir landið fram á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu. 

Þar segir að ákvörðun um að seinka og aflýsa flugferðum hafi verið tekin eftir samtal við veðurfræðinga. Spáð er að vindhviður muni ná allt að sextíu hnútum en til að hægt sé að koma farþegum örugglega um borð og frá borði á flugvellinum megi hviður ekki fara yfir fimmtíu hnúta.

Þá segir að Play hafi þegar frestað áætluðum flugferðum sem áttu að fara frá Barcelona og Madrid til Íslands í kvöld. Áætluð brottför á þeim ferðum verður klukkan ellefu í fyrramálið. 

Þar að auki hefur flugfélagið aflýst sjö flugferðum til Evrópu í fyrramálið og seinkað flugi til Tenerife og Kaupmannahafnar til eftirmiðdags á morgun. 

Þá verður flugferðum sem áttu að koma frá Norður-Ameríku til Íslands í fyrramálið verið seinkað og munu í þess í stað lenda á Keflavíkurflugvelli seinni partinn á morgun. 

Farþegar Icelandair endurbókaðir

í tilkynningu frá Icelandair segir að flugferðir til Evrópu í fyrramálið auk flugferða til Boston og New York hafa verið felldar niður. Þar af leiðandi falli flug frá sömu áfangastöðum til Íslands um miðjan dag á morgun einnig niður. 

Auk þess kemur fram að flug til Tenerife á morgun sé á áætlun en haft verði samband við farþega ef breytingar verði þar á. Þá hafi þrjár flugferðir fram og til baka innanlands í fyrramálið verið felldar niður. Gert væri ráð fyrir að síðdegisflug á morgun verði á áætlun. Félagið muni fylgjast vel með veðri og upplýsa farþega ef breytingar verði á áætlun.

Þá segir að farþegar sem áttu bókaða flugferð sem nú hefur verið aflýst verði endurbókaðir og muni fá senda nýja ferðaáætlun. Vegna umfangs röskunarinnar megi búast við að endurbókunarferlið taki lengri tíma en venjulega. 

„Farþegum er þökkuð þolinmæðin og bent á að fylgjast vel með þeim skilaboðum sem félagið sendir auk þess sem hægt er að fylgjast með á vef félagsins undir bókunin mín og í Icelandair appinu. Ekki er þörf á að hafa samband við Icelandair nema ný ferðaáætlun falli ekki að ferðalaginu,“ segir loks í tilkynningu. 

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×