Innlent

Vara við svika­síðu í nafni Há­skóla Ís­lands

Lovísa Arnardóttir skrifar
Aðeins er hægt að skrá sig til náms á hi.is. 
Aðeins er hægt að skrá sig til náms á hi.is.  Vísir/Vilhelm

Svikasíða hefur verið sett í loftið í nafni Háskóla Íslands. Tilgangur síðunnar er að hafa fé af fólki eða fjárhagsupplýsingar þess. Háskólinn bendir á að aðeins er hægt að skrá sig til náms á hi.is. 

Háskóli Íslands varar við tilraunum til netsvika í nafni Háskólans. Í tilkynningu frá háskólanum kemur fram að búið sé að setja upp vefsíðu í nafni háskólans þar sem notendur eru blekktir með því að skrá sig til náms við skólann. Á sama tíma eru þeir krafðir um greiðsluupplýsingar líkt og sé verið að innheimta skráningargjald skólans.

„Við fyrstu sýn virðist ekkert athugavert við síðuna en þegar grannt er skoðað er margt vafasamt. Aðilar sem hafa svona síður virkar virðast enda æ klókari í að setja gögn fram til að blekkja fólk,“ segir í tilkynningunni og að tilgangur síðunnar sé eingöngu að hafa fé ólöglega af fólki eða til að ná af þeim fjárhagslegum upplýsingum, og nota þær í ólöglegum tilgangi.

Fólk er hvatt til að sniðganga síðuna og forðast það að setja nokkur gögn inn á hana. Eins er fólk hvatt almennt til að sýna ítrustu varúð á netinu og gefa ekki upp upplýsingar á vefsvæðum sé minnsti grunur um að eitthvað vafasamt geti verið á ferðinni.

Athygli er vakin á því að einungis er unnt að skrá sig til náms á heimasíðu Háskóla Íslands, á www.hi.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×